Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Kínverjar vilja búa til börn á Íslandi

15.05.2016 - 07:38
Mynd með færslu
 Mynd: Einar Rafnsson - RÚV
Framkvæmdastjóri Norðurljósahúss Íslands vonar að húsið verð til þess að sumarferðalangar ákveði að koma aftur í vetrarferð til landsins. Dæmi séu um að Kínverjar reyni að geta börn undir norðurljósum hér á landi en slíkum börnum fylgir gæfa samkvæmt hjátrú.

Norðurljósahús Íslands verður opnað í Wathneshúsi á Fáskrúðsfirði í dag. Þar eru til sýnis ljósmyndir sem Jóhanna Kristín Hauksdóttir og Jónína Guðrún Óskarsdóttir hafa tekið af norðurljósum á Fáskrúðsfirði, einnig myndbönd og fræðsla um norðurljós, hvenær þau sjást helst og hvernig eigi að taka af þeim myndir.

Jónína sem er framkvæmdastjóri Norðurljósahússins segir mikilvægt að gleyma ekki norðurljósunum á sumrin því von um að sjá þau geti laðað fólk til Íslands í annað sinn. „Það kom þessar spurningar einmitt; á hvaða tíma ársins eru bestar líkur? En þetta vekur áhuga og vonandi að fólk kannski komi aftur á öðrum árstíma og á þessum tíma þegar er minna um ferðafólk,“ segir Jónína.

Hún hefur ósjaldan tekið á móti norðurljósahópum og skynjar mikla aukningu í hópi Kínverja. Í bæði Kína og Japan er sterk hjátrú tengd norðurljósum. Þannig á gæfa að fylgja börnum sem getin eru undir Norðurljósum. „Ég hef heyrt sögur af því að það sé engin launung í gangi. Leiðsögumenn, bílstjórar og þá líklegast samferðafólk þessara para sem að verða vitni að ástarleikjum ekkert langt frá rútunum og þeim aðstæðum þar sem fólk er að skoða norðurljósin. Kínverjar hafa ekki leyfi til að eignast mörg börn þannig að það er kannski það sem rekur fólk af stað; að reyna að eignast barn sem hamingjan fylgir. Þannig að eflaust verður þetta eitthvað sem togar einhverja einstaklinga til landsins.“

 

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV