Kínverjar reiðir Pence

05.09.2019 - 19:37
Mynd: Guðmundur Bergkvist / Guðmundur Bergkvist
Sendiherra Kína á Íslandi segir að ummæli Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna, séu ætluð til að spilla tvíhliða samstarfi Íslands og Kína. Hann segir að verkefnið Belti og braut sé ekki hugsað sem önnur Mashall aðstoð.

Kína var ofarlega í huga Mike Pence þegar hann ræddi við fjölmiðla fyrir utan Höfða í gær. Hann þakkaði Íslendingum fyrir að hafa frábeðið sér þátttöku í Belti og braut og varaði íslensk stjórnvöld við að eiga í viðskiptum við kínverska fjarskiptarisann Huawei. Sendiherra Kína á Íslandi, Jin Zhijian, segir að nánast allt sem Pence sagði um Kína í heimsókn sinni hafi verið rangt. Hann hafi ýkt áhrif Kína á Norðurslóðum og haft Huawei fyrir rangri sök.

„Pence fer með falsfréttir. Með því að segja að íslensk yfirvöld hafi hafnað Belti og braut frumkvæði Kína. Svo að allar þessar yfirlýsingar vöktu hjá mér grun um að tilgangur hans með þeim miðaði að því að spilla samskiptum Kínverja og Íslendinga.“

Belti og braut er stórtækt samgöngu- og viðskiptaverkefni kínverskra stjórnvalda og snýr að því að tengja Kína við markaði um nánast allan heim í lofti, láði og legi. Hundrað þrjátíu og átta ríki koma að verkefninu með einum eða öðrum hætti og stendur Íslandi það til boða. Ekki hefur verið tekin afstaða til þess, líkt og fram kom í máli forsætisráðherra og utanríkisráðherra í gær. Sendiherrann segist hafa óskað eftir fundi með ráðamönnum til að ræða málið í samhengi við ummæli Pence.

„Ég vil leggja áherslu á það að Belti og braut frumkvæðið er ekki ný útgáfa af Marshall-aðstoðinni með skilgreind markmið. Þetta er eingöngu samskiptavettvangur.“

Nefnir sendiherrann beint flug á milli ríkjanna tveggja og samstarf á sviði orkumála í þriðju ríkjum. Þá séu kínversk fyrirtæki tilbúin til að taka þátt í innviðaverkefnum hér á landi. Allt tal um dulda heimsvaldastefnu Kína í tengslum við verkefnið séu hugarórar. „Það eru engar duldar áætlanir í frumkvæðinu.“

Fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna í utanríkisnefnd munu fara fram á að forsætisráðherra og utanríkisráðherra mæti fyrir nefndina til að gera grein fyrir heimsókn Pence, þar með talið ummælum hans um Kína. Nefndin mun hins vegar ekki funda fyrr en í þarnæstu viku.

 

Magnús Geir Eyjólfsson
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi