Kínverjar ítreka mikilvægi sitt á Norðurslóðum

11.10.2019 - 08:49
Mynd: Arctic Circle / Arctic Circle
Kína á mikilvæga hagsmuni að gæta í málefnum Norðurslóða. Meginmarkmið Kína í samvinnu ríkja á svæðinu er að ýta undir sjálfbærni á Norðurslóðum. 

Þetta kemur fram í máli H.E. Gao Feng, sérfræðings í Norðurslóðamálum í utanríkisráðuneyti Kína, á Hringborði Norðurslóða í Hörpu. Kína er ekki meðlimur í Norðurskautsráðinu, en er þar sem áheyrnarfulltrúi. Kínversk stjórnvöld hafa lengi falast eftir því að hafa meiri áhrif í stjórnun svæðisins og Geo Feng undirstrikaði mikilvægi Kína í þeim efnum.

„Hvern vetur blása kaldir vindar frá norðurskautinu alla leið á mínar heimaslóðir í Peking. Svo það er óhætt að segja að Asía og Norðurslóðir spili saman á margvíslegan hátt,“ segir Geo Feng. Það sé alveg ljóst að áhrif loftslagsbreytinga komi mun betur í ljós á Norðurslóðum en annars staðar í heiminum. 

Geo Feng fullyrðir að kínversk stjórnvöld hafi náð að minnka losun gróðurhúsalofttegunda um 45% frá því sem var árið 2005. Þá mun Kína ná að uppfylla markmið Parísarsamkomulagsins. 

Mikilvægi Kína í málefnum Norðurslóða felst þó ekki síst í landfræðilegri legu Kína, segir Geo Feng. Til þess að komast til og frá Asíu um siglingaleiðina sem liggur um Norðurslóðir, og verður sífellt aðgengilegri, er farið um hafsvæði í kringum Kína, Japan og Kóreu.

„Kína er reiðubúið að vinna náið með öðrum ríkjum Asíu og saman gætum við komið með mikið að borðinu í því að tryggja farsæla framtíð Norðurslóða.“

andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi