Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Kínverjar hlutgerðir og kenndir við Dalvík

Mynd með færslu
Kínverskir ferðamenn á Íslandi. Myndin tengist fréttinni ekki beint.  Mynd:
Þeir skíta í vegköntum. Þeir koma illa fram við afgreiðslufólk. Þeir rústa hótelherbergjum og skilja baðherbergi eftir á floti Þeir setja upp kettlingsandlit til að kría út afslætti og tala enga ensku. Þeir kunna ekki að keyra og þú finnur það sko á lyktinni ef það voru Kínverjar með bílinn á leigu. Það er algengt að heyra eða rekast á miður skemmtilegar fullyrðingar um kínverska ferðamenn.

Kallaðir Dalvíkingar

Fyrir nokkrum árum fóru sumir í ferðaþjónustugeiranum að kalla þá Dalvíkinga, svo hægt væri að skammast yfir þeim þá án þess að gera of mikið úr þjóðerninu. Þessi umræða er ekki bundin við Ísland, kínverskir ferðamenn hafa verið sakaðir um að leyfa börnunum sínum að hægja sér hvar sem er, mynd af ömmu að aðstoða barnabarn fyrir utan Burberry búð í Oxford fór víða á netinu og það var sett skilti fyrir framan Louvre-safnið í París þar sem þeim skilaboðum var komið á framfæri að ekki mætti gera þarfir sínar þar, já og skilaboðin voru bara á kínversku. Er þetta orðspor verðskuldað eða byggir það á fordómum og flökkusögum? Er þetta til marks um einhvern núning milli ólíkra menningarheima? Spegillinn ræddi þetta við Arnar Stein Þorsteinsson, kínverskufræðing og sölustjóra hjá Nonna Travel. 

Fáum nasaþef af kínversku sveitinni

„Þróunin í borgum í Kína er þannig að það er ofboðslega mikið af fólki sem er að flytja úr sveitum og inn í borgirnar. Fólk kannski hefur, ég kann ekki við orðið að vera siðmenntaður, finnst það gildishlaðið en Kínverjar bara hegða sér öðruvísi og í sveitinni í Kína leyfirðu börnunum að hægja sér hvar sem er. Þegar ég bjó í Kína á árunum 2001 til 2006 var mjög algengt að börnin gengu um í nærbuxum með götum á, það var bara hægt að vippa þeim upp og þau gátu létt á sér á götunni. Það þótti í lagi en í dag tíðkast þetta ekki lengur í borginni þar sem ég bjó. Þetta er að breytast. En það eru mörg bein flug frá minni borgum í Kína til Evrópu og út af þessum massatúrisma ertu að díla við fólk sem er ekki ferðavant og við erum svolítið bara að fá nasaþef af kínversku sveitinni, ef svo má segja. Sérstaklega í París og þessum stórum borgu þar sem er svo ofboðslegur straumur af kínverskum ferðamönnum og þeir eru auðvitað alls konar. 

Þeim fjölgar sem vilja ekki bara haka í box

Samsetning ferðamanna sem hingað koma er að breytast, færri koma frá Bandaríkjunum og Bretlandi, fleiri frá Kína. Nú er einn af hverjum 20 ferðamönnum sem hingað kemur kínverskur og hlutfallið gæti hækkað, af öllum þeim þjóðernum sem hingað koma er vöxturinn mestur hjá Kínverjum. Kínverskir ferðamenn eru auðvitað alls konar en til einföldunar talar Arnar Steinn um tvo hópa. Annars vegar nefnir hann millistéttarfólk í pakkaferðum,  það er oft frá smærri borgum og kannski í sinni fyrstu utanlandsferð. Það vill sjá sem mest á stuttum tíma og kemur ekki endilega bara við á Íslandi, heldur afgreiðir oft Noreg, Svíþjóð og Danmörku í sömu ferð. Það er mikill hraði og kannski bara dvalið hér í tvo, þrjá daga. Hinn hópurinn sem Arnar nefnir samanstendur af sterkefnuðu, hámenntuðu fólk frá stórborgum á borð við Peking og Sjanghæ. Fólki sem hefur komið oft til Evrópu, kýs að koma bara til Íslands og vill ferðast á eigin vegum og ekki bara sjá sem flest heldur njóta og leyfa sér ýmislegt. „Þetta er fólk sem hefur raunverulegan áhuga á að koma til Íslands, að upplifa en ekki bara haka í eitthvert box.“ 

Þetta eru ferðamenn sem skila miklu í ríkiskassann, þetta eru þessir stórfiskar sem stjórnvöld sækjast eftir og það er í þessum hópi sem fjölgunin er mest hér, að sögn Arnars.

Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Arnar Steinn Þorsteinsson.
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV

Dettur ekki í hug að taka upp blautt handklæði

En rekast kínverskir ferðamenn á veggi hér? Koma upp einhverjir menningarlegir árekstrar? „Þ.að er svolítið sorglegt að þrátt fyrir kommúnistabyltinguna í Kína 1949 og sigur kommúnistanna er þetta eitt kapítalískasta land sem til er í dag. Það er ofboðslegur kapítalismi og ofboðsleg stéttarskipting í Kína. Fólk er vant mjög háu þjónustustigi og þjónustufólkið er eiginlega bara ósýnilegt fyrir þér. Það lætur hlutina ganga og þú ert ekkert endilega ókurteis við það þó sumir séu það auðvitað. Það er bara þarna, skuggar sem hreyfast í kringum þig og sjá til þess að upplifun þín sé frábær. Þú skuldar því ekkert. Fólk vinnur ótrúlega mikið, það er mikill hraði í lífinu og það hefur hvorki tíma né áhuga á því að sýna þér í þjónustustarfi einhverja tillitssemi. Þetta er bara þitt djobb og þeir eru ekki að fara að sýna þér vinsemd eða virðingu. “

Á Íslandi sé venjan að koma fram við fólk á jafningjagrundvelli og Kínverjar séu ekki vanir því. „Þetta er ekki illt innræti, þetta er bara það sem fólk er vant,“ segir Arnar Steinn. 

Mynd með færslu
 Mynd: Brodie Vissers - burst.shopify.com/Creative commo
Ferðamenn á Íslandi.

Það hefur verið kvartað yfir því að Kínverjar gangi illa um hótelherbergi. „Ég held að þeir gangi ekkert endielga verr um en aðrir þó það fari af þeim slæmar sögur. Mögulega má líta á það þannig að það sé búið að greiða fyrir þessa þjónustu. Þegar ég fer á hótel erlendis er ég alltaf að taka til í herberginu áður en ég fer. Þeim myndi ekki detta það í hug. Þeir eru búnir að borga fyrir þessa þjónustu. Af hverju ætti ég að fara að tína rennblautt handklæði upp af gólfinu. Þetta er bara viðhorf. Svo er rétt að hafa í huga að gistiverð á Íslandi er ofboðslega hátt samanborið við Kína. Fyrir herberg á gistiheimili á Suðausturlandi gætirðu fengið fimm stjörnu herbergi á æðislegu hóteli í Peking, þeir skilja ekki þennan mun, hugsa ég var að greiða 200 evrur fyrir gistingu og þetta er ekkert spes.“

Sterk lykt og sundföt hengd til þerris úti í glugga

Spegillinn setti inn fyrirspurn í nýstofnaðan Facebook-hóp þar sem fólk í ferðaþjónustu deilir sögum og ráðleggingum um hvernig best megi þjónusta kínverska ferðamenn. Meðlimir svöruðu því til að umgengnin væri oft slæm. Ein sagði að eftir eina nótt gæti herbergið verið eins og fimm manna fjölskylda hafi gist þar í viku. Fólk komi oft með ýmis matvæli með sér og lyktin geti verið svakaleg. Svo séu sundföt oft hengd til þerris út í glugga þó svo að það sé aðgengi að bæði þvottavél og þurrkara. Það skipti reyndar máli hvaðan fólk komi og kínverjar sem hafi verið við vinnu eða nám á vesturlöndum stingi minna í stúf hvað varðar umgengni og ferðamenn frá Hong Kong séu kurteisari og ekki eins miklir sóðar. Annar meðlimur greindi frá því að tveir gestir sem voru komnir yfir miðjan hefðu tekið klósettbursta af hótelinu og notað hann til að þrífa bíl sem þau höfðu á leigu. 

Hlutfallslega fleiri tjón vegna Íslendinga

Það hafa gengið sögur um slaka akstursfærni Kínverja, þeir læri bara að keyra í einhverjum aksturshermum í Kína, komi svo hingað algerlega blautir á bak við eyrun. Spegillinn bar þetta undir Steingrím Birgisson, forstjóra Bílaleigu Akureyrar sem hafnaði því að kínverskir ferðamenn skæru sig eitthvað úr. Sagði að hlutfallslega lentu þeir ekki í fleiri tjónum en aðrir ferðamenn. Raunar væru Íslendingarnir verstir, hlutfallslega séð. En hvað um samskiptin? Jú, þau voru erfiðari í byrjun, segir Steingrímur, það hafi aðallega skrifast á tungumálaörðugleika. Fyrirtækið hafi tekið á þessu með því að þýða leiðbeiningar og bæklinga á kínversku og veita þeim ríkari þjónustu en öðrum, meiri tíma. Nú séu samskiptin góð og alls ekki þeirra tilfinning að Kínverjar komi verr fram en aðrir. Hann telji þessar leiðinlegu sögur flökkusögur sem ekki sé mikill fótur fyrir í dag. 

Allt öðruvísi umferðarmenning

Hann segir umferðarmenninguna í Kína allt öðruvísi en hér, mikið ekið á hraðbrautum þar sem umferðin er þung og hæg og algengt að svína á næsta mann. Svo sé vegakerfið hér einfaldlega ekki nógu gott, of fá útskot til að stoppa á og mikið um einbreiðar brýr. 

Allir heyrt um Kínverjann sem bakkaði niður Laugaveginn

Arnar segir að Kínverjar sem ferðast um Vesturlönd upplifi sig oft sem annars flokks. „Fyrir tveimur árum var gerð stór könnun meðal ferðamanna frá Kína og um 40% þeirra upplifðu sig sem annars flokks, fannst þeir ekki fá sömu þjónustu og ekki mæta sama viðmóti og aðrir og fannst það ömurlegt. Ef mér fyndist ekki komið vel fram við mig kæmi ég kannski illa fram á móti, ég veit það ekki. Svo hafa verið sögur í fjölmiðlum um slæma kínverska ferðamenn á bílaleigubílum og þetta vindur upp á sig. Það hafa allir heyrt sögur um Kínverjann sem bakkaði niður Laugaveginn og svoleiðis lagað.“

Margir líti á Kínverja sem hina

Arnar Steinn kennir skilningsleysi og fáfræði um, vill ekki tala um rasisma. Fólk þekki ekki nógu vel til menningarmunarins. 

Finnst Íslendingum kannski, manstu eftir laginu hans Ladda um Grínverjann. Er þetta eitthvað framandi fólk og auðveldara þá að segja einhverjar sögur af því, segja heyrðu, það var einhver kínversk kerling sem kúkaði úti í kanti. Að segja frekar svona sögur af Kínverjum en Þjóðverjum eða Frökkum?

„Já, ég held það, færri Íslendingar eiga kínverska vini en þýska eða ítalska. Við þekkjum Kínverja ekki jafn vel, þeir eru svolítið framandi, svolítið hinir og því auðveldara að hlutgera þá, segja ég skil þetta fólk ekki, það er bara óskiljanlegt. Það er þægilegt að afgreiða það þannig og margir sem gera það en það er ekki í lagi og við í ferðaþjónustunni þurfum að gera miklu betur í því að koma til móts við þau. Það er engin spurning.“

Erfiðara að hunsa tilmæli á eigin tungumáli 

Hann segir hægt að bæta þjónustuna með tiltölulega einföldum hætti. „Eins og dæmið sem þú nefndir með Bílaleigu Akureyrar. Það eru fleiri fyrirtæki að gera þetta og hótelin geta gert þetta með því að setja upp einfaldan upplýsinga- og öryggisbækling á herbergin. Það er þá tvennt í því. Í fyrsta lagi finnst kínverska ferðamanninum hann meira velkominn þegar hann fær upplýsingar á sínu tungumáli, hvort sem hann talar góða ensku eða ekki, svo er hitt að þegar maður les tilmæli á sínu eigin tungumáli er erfiðara að hunsa þau. Við höfum heyrt sögur um fólk að sjóða nærbuxur í hitavatnskötlum á herbergjum eða sjóða núðlur. Þá getur fólk sagt, nei ég vissi ekki að það mætti ekki. Þá setur hótelið bara miða á kínversku við teketilinn og segir þetta er ekki í boði.“ 

Arnar nefnir líka ákveðið samskiptaleysi í netheimum. Kínverjar noti almennt ekki Facebook og Google. Þeir segi ekki hug sinn á Tripadvisor. Þeir noti aðrar síður og önnur forrit. 

Upplifun flestra af Kínverjum jákvæð

En þarf að fá Kínverja til að koma til móts við okkur, fá þá til að sýna þjónustufólki meiri vinsemd? Arnar Steinn telur erfitt að skóla Kínverja til, þeir séu stoltir af sér og sinni þjóð og við breytum þeim ekki svo glatt. „Ég held hins vegar að með meiri ferðalögum og samskiptum milli kínverskra ferðamanna og fleiri heimsóknum til annarra staða muni þetta þróast og breytast. Í raun finnst mér kínverski ferðamaðurinn, ef maður tekur eitthvert yfirheiti á þetta, mér finnst hann hafa þróast í jákvæða átt hraðar en ég átti von á, til dæmis með þessari aukningu sjálfstæðra ferðamanna sem eru að koma til Íslands. Hvernig þeir ferðast og upplifun fólks á þeim. Hún er á heildina litið mjög jákvæð því þeir skilja svo mikið eftir sig í hagkerfinu. Þetta er mjög verðmætir ferðamenn.“