Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Kína í sjötíu ár - frá Maó til Xi Jinping

07.10.2019 - 07:30
epa06237187 A Chinese tourist holds a Chinese national flag and uses their mobile phone to take a photograph in Tiananmen Square during National Day celebrations in Beijing, China, 01 October 2017. China celebrates its National Day on 01 October, marking
 Mynd: EPA
Í síðustu viku voru sjötíu ár frá stofnun Alþýðulýðveldisins Kína. Haldið var á tímamótin með pompi og prakt í höfuðborginni Peking þann 1. október. Mikið vatn hefur runnið til sjávar í Kína frá því Kommúnistaflokkurinn undir stjórn Maós formanns komst til valda 1949, og hefur kínverskt samfélag þróast úr sósíalísku bændasamfélagi yfir alþjóðlegt, kapítalískt stórveldi.

Var tvítug þegar kommúnistar tóku völdin

Í áttunda þætti Heimskviðna er fjallað stöðu Kína í alþjóðasamfélagi nútímans, og farið yfir sögu þessa merkilega lands frá stofnun Alþýðulýðveldsins, sem er gjörbreytt frá því fyrir 70 árum. 

Hin rétt níræða Cui Baoxian hefur búið í sömu íbúðinni í gamalgrónu húsasundi í Peking í yfir sjötíu ár. Hún var að hella upp á te þegar fréttamenn AP fréttastofunnar í Kína bar að garði í vikunni sem leið. Óhætt er að segja að Cui hafi lifað tímana tvenna, en hún var tvítug þegar blóðug borgarastyrjöld í Kína tók enda og kommúnistaflokkur Maó Zedongs, tók völdin.  

Cui Baoxian ræðir við fréttamenn AP. - Myndband frá Bloomberg. 

Cui segir fréttamönnum frá lífinu í Kína fyrir byltinguna. Þá hafði hún unnið fyrir sér sem götulistamaður og dregið þannig fram lífið ásamt eiginmanni sínum og séð börnum sínum tveimur farborða. Þau áttu varla fyrir mat, en eftir byltinguna fór að birta til. Cui og eiginmaður hennar voru ráðin til starfa í ríkisreknum sirkus og fengu sæmileg laun. Hún segir framtíðina hafa lofað góðu. Það átti þó eftir að breytast.

Mikið um dýrðir í Peking

Við víkjum aftur að Cui gömlu síðar í þessum pistli. Því um svipað leyti og hún hellti uppá í gömlu íbúðinni í gamalgróna húsasundinu, fóru mikil hátíðarhöld fram annars staðar í höfuðborginni, nánar tiltekið þann fyrsta október. Þá fögnuðu Kínverjar þessum merku tímamótum, að sjötíu ár eru frá stofnun Alþýðulýðveldisins Kína. Sjötíu ár frá því að Maó formaður lýsti yfir stofnun alþýðulýðveldisins á torgi hins himneska friðar. 

En nú stendur þar annar leiðtogi, Xi Jinping, forseti - og ávarpar þjóð sína.

Hér má sjá hátíðarhöldin á torgi hims himneska friðar þann 1. október, 2019.

Xi Jinping brýnir fyrir þegnum sínum að Kína hafi skráð sig á spjöld mannkynssögunnar, og nú sé það þeirra að skapa framtíðina. Flokkurinn, herinn og allt það ólíka fólk sem landið byggir - í þessari röð - þurfi að taka höndum saman og vinna áfram að því markmiði sem byltingarleiðtogarnir lögðu grunninn að - að uppfylla kínverska drauminn, hver svo sem hann kynni nú að vera! Lengi lifi Alþýðulýðveldið Kína, hrópar Xi, lengi lifi kínverski kommúnistaflokkurinn - bætir hann svo við. 

Já lengi lifi Kína, og lengi lifi flokkurinn. Flokkurinn, sem hefur fylgt Kínverjum í gegnum gríðarlegar efnahagslegar og samfélagslegar breytingar síðastliðin sjötíu ár. Flokkurinn sem stendur nú í viðskiptastríði við Bandaríkin og hefur stórhuga áform um að endurvekja silkileiðina svokölluðu, áætlun sem í daglegu tali er nefnd Belti og braut. 

En dauði tuga milljóna Kínverja er einnig brennimerktur þessum sama flokki. Hungursneyð, fjöldamorð, pólitískar ofsóknir og margháttað harðræði sem þegnar Alþýðulýðveldisins hafa þurft að þola - já allt þetta átti sér stað á vakt flokksins. 

Sjötíu ár eru langur tími, og sem fyrr segir á Kína nútímans fátt skylt við það Kína sem varð til á upphafsárum Alþýðulýðveldisins - þótt Xi Jinping minnist byltingarinnar með hlýhug og mynd af Maó formanni gnæfi enn yfir torgi hins himneska friðar. Til að skilja betur stöðu þessa stórveldis í alþjóðasamfélagi nútímans, er vert að líta til baka - nú á þessum tímamótum - og spyrja: hvernig varð Alþýðulýðveldið Kína til?

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
Maó formaður ávarpar kínversku þjóðina þann 1. október, 1949. Búið er að lita myndina.

Alþýðulýðveldið Kína verður til

„Það verður til í kjölfar borgarastyrjaldar sem átti sér stað á milli tveggja afla í Kína, á milli kommúnistaflokksins ananrs vegar og hinsvegar þjóðernisflokksins, sem tapaði og flúði til Taívan," segir Magnús Björnsson, forstöðumaður Konfúsíusarstofnunarinnar á Íslandi. Magnús nam alþjóðastjórnmál í Renmin-háskóla í Peking og starfaði um hríð í íslenska sendiráðinu þar í borg. 

Vert er að nefna að borgarastyrjöld hafði staðið yfir í landinu frá því Japanir yfirgáfu það við lok síðari heimsstyrjaldar - og þjóðernissinnar tóku við. Eins og Magnús nefnir flúðu þeir til Tavían, og Maó Zedong, leiðtogi Kommúnistaflokksins verður æðsti maður hins nýstofnaða lýðveldis. 

Þótt þetta hafi verið blóðug bylting af gamla skólanum, þar sem hundruð þúsunda féllu, var hún líka liður í kaldastríðstaflinu, þar sem kommúnistar voru studdir af Sovétmönnum en þjóðernissinnar af Bandaríkjamönnum. 

„Trúlega var einn stór áhrifavaldur til þess að þjóðernissinar töpuðu að Bandaríkjamenn voru búnir að missa trúna á þeim, sérstaklega leiðtoga þeirra Chiang Kai-shek, sem fylgdi ekki alltaf ráðleggingum þeirra, þannig að Bandaríkjamenn gáfu hann hálfpartinn upp á bátinn," segir Magnús.

Mynd með færslu
 Mynd: kim.is
Magnús Björnsson, forstöðumaður Konfsúíusarstofnunarinnar Norðurljósa.

Algjör efnahagsleg og þjóðfélagsleg umbylting

Með stofnun Alþýðulýðveldisins Kína hrindir kommúnistaflokkurinn loforðum sínum í framkvæmd, og í hönd fóru umfangsmiklar breytingar á uppskiptingu jarðnæðis. Stórir landeigendur misstu landið og því var skipt upp á milli bænda. Í borgum voru verksmiðjur þjóðnýttar og erlend fyrirtæki voru rekin úr landi, enda hafði Maó lofað því þegar hann ávarpaði þjóð sína á torgi hins himneska friðar, að oki erlendra stórvelda yfir Kína væri lokið. Þessar umfangsmiklu þjóðfélagsbreytingar fóru þó nokkuð hægt af stað, en með tíð og tíma fór að gæta aukinnar róttækni innan flokksins og þá ekki síst hjá Maó formanni. 

„Þá er í raun farið út í fullkomna þjóðnýtingu á allri iðnaðarstarfsemi og eins því jarðnæði sem var skipt upp á milli bænda var skipt upp í hinum svokallaða stóra stökki, sem er efnahagsleg stefna sem var sett fram," segir Magnús.

Mynd með færslu
 Mynd: alphahistory.com
Mynd frá 1958 sem sýnir bændur að störfum úti á akrinum.

Framfarastökkið sem endaði með skelfingu

Stóra stökkið, sem stundum er kallað framfarastökkið mikla, var nokkurs konar efnhagsleg áætlun sem ætlað var að umbylta bændasamfélaginu algjörlega. Árið 1958 er eignaréttur afnuminn í landinu, og öllum landbúnaði í Kína er í raun steypt í samyrkjubú - sem endaði með skelfingu. Talið er að ekki færri en þrjátíu milljónir manna hafi látið lífið í hungursneyð sem fylgdi í kjölfar þessara breytinga frá 1958 til 1961.

„Að mestu leyti var þetta mannlegur harmleikur. Þessi efnahagsstefna sem byggði á því að fara í samyrkjubúin og alþýðukommúnurnar beið algjört skipbrot.," segir Magnús, en á sama tíma og landbúnaðarsamfélaginu var breytt og byggð upp samyrkjubú var farið í mikla uppbyggingu í iðnaði í sveitunum.

„Bændurnir sem voru áður uppteknir að yrkja jörðina og framleiða mat voru settir í það að framleiða stál og annan iðnvarning."

Eftir sátu akrarnir og enginn sinnti þeim. Þetta fór sömuleiðis ekki vel. Í kjölfarið dró Maó sig til hlés, hann lét af embætti sem leiðtogi landsins en gegndi áfram formennsku í Kommúnistaflokknum. Við stjórn landsins tók Deng Xiaoping, og fékk hann það ærna verkefni í hendurnar að reisa við efnahag landsins.

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia commons
Áróðursmynd frá tímum menningarbyltingarinnar.

Menningarbyltingin: úr öskunni í eldinn

Til að gera langa sögu stutta, þá þoldi Maó ekki lengi við á hliðarlínunni, og nokkrum árum síðar, eða 1966, hrinti hann af stað menningarbyltingunni svokölluðu og sölsaði undir sig völdin í landinu aftur. Hann naut stuðnings ungra róttæklinga, og hönd fór algjör umbylting á kínversku samfélagi - aftur! 

Að mati formannsins höfðu kapítalísk öfl náð að menga kínverskt samfélag og vildi hann því byrja algjörlega upp á nýtt, og útrýma öllu því sem tengdist gamla Kína; menningu, siðum, venjum og hugmyndafræði. 

„Það er svo sem margt sem felst í þessari byltingu en fyrst og fremst er það eins og nafnið gefur til kynna á að umbreyta öllu samfélagi í Kína menningarlega séð, byrja upp á nýtt og brjóta það gamla niður," segir Magnús.  „Og allir sem höfðu verið í valdastöðum áður voru niðurlægðir og teknir úr sínum stöðum og við tóku róttæklingar, ungt fólk gjarnan."

Þessa hugmynd átti Maó skuldlaust. Hann vildi segja skilið við mörg þúsund ára sögu kínverskrar menningar, og hans sýn var að við tæki kommúnísk útópía sem myndi færa Kína til nútímans. Áfram var áherslan á landbúnaðinn og sveitirnar. Menntamenn voru sendir upp í sveit til að læra af bændunum. Í stað þeirra komu meðlimir úr stúdentahreyfingunum, rauðu varðliðarnir, róttæklingar sem voru formanninum hliðhollir. 

Og þessu kynntist hin nú níræða Cui, sú gamla muniði, sem býr enn í gömlu íbúðinni í gamla húsasundinu í Peking. Á tímum menningarbyltingarinnar var sirkusinn sem hún og maður hennar störfuðu í leystur upp, og henni gert að vinna heima fyrir á meðan eiginmanni hennar var gert að vinna erfiðisvinnu. Þetta voru erfiðir tímar. 

„Við vorum mjög tæp á tauginni á þessum tíma, þetta var erfitt bæði andlega og fjárhagslega," sagði Cui. Og þannig leið tíminn, því þótt dregið hafi úr þessum róttæku aðgerðum Maós lauk menningarbyltingunni ekki formlega fyrr en með dauða formannsins 1976. Og þá, snéri menntafólkið til baka, úr sveitunum, og aftur í borgirnar. 

„Þetta fólk kom allt til baka, reynslunni ríkari. Og sá þrátt fyrir 30 ára sögu alþýðulýðveldisins þar sem átti að taka til hendinni og færa lífskjör almennings upp á við, það markmið hafði algjörlega mistekist," segir Magnús.

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
Deng Xiaoping ásamt Jimmy Carter, fyrrum forseta Bandaríkjanna.

Deng Xiaoping tekur við

Og einn þeirra var Deng Xiaoping, sem meðal annars hafði verið sendur til vinnu í dráttavélaverksmiðju. Hann hafði sem fyrr segir áður verið samstarfsmaður Maós og fært margt til betri vegar eftir stóra framfarastökkið á sínum tíma. En nú var hann kominn til að vera, þótt hann hafi ekki tekið við sem formaður flokksins eða sem forseti landsins. 

„En hann var náttúrulega aðalmaðurinn og það vissu það allir," segir Magnús. Deng stjórnaði, og stuðlaði að umfangsmiklum breytingum á kínversku samfélagi, breytingum sem Kína nútímans á rætur sínar að rekja til. Hann færði landið meðal annars aftur til bændanna, einyrkjar tóku við af samyrkjubúum með tíð og tíma og einkaframtak var heimilað. Þá opnaði hann Kína fyrir umheiminum og útlendingum var leyft að fjárfesta - sem hefur meðal annars haft áhrif á stækkun borga. 

Rúm fjörutíu ár eru síðan Deng Xiaoping og hans fólk tók við, og gengið hefur á ýmsu. Til að fara hratt yfir sögu er þó hægt að segja að hægfara skref hafi verið stigin í átt til markaðsbúskapar og efnahagslegar umbætur hafi orðið sífellt hraðari.

epa04896992 A general view of high-rise commercial and residential buildings in Beijing, China, 25 August 2015. Global share prices posted some of their biggest falls on 24 August since the global financial crisis in 2008, amid growing fears about the
 Mynd: EPA
Stórborgir hafa vaxið gríðarlega í Kína síðustu áratugi. Mynd frá Peking.

Sósíalískur markaðsbúskapur eða illa dulbúinn kapítalismi?

Kommúnistaflokkurinn er enn þá við völd í Kína, svo það sé á hreinu, en stefna flokksins er komin langt frá kommúnískri hugmyndafræði. „Fyrst var þetta nú kallaður sósíalismi með kínverskum einkennum, og er það nú að einhverju leyti ennþá kallað það. Þetta eru bæði kommúnismi og kapítalismi sem vinna þarna saman," segir Magnús og bætir því að Kínverjar séu ekki feimnir við að viðurkenna það.

Sósíalískur markaðsbúskapur er þetta stundum kallað, en ljóst er engu að síður að í dag er fátt sem minnir á sósíalisma í Kína. Þetta var ekki meðvituð ákvörðun sem var tekin einn góðan veðurdag, heldur var þetta þróun sem náði yfir langt tímabil. Og flokkurinn og hugmyndafræði hans hefur þróast sömuleiðis.

„Hugmyndafræðin hefur náttúrulega breyst gríðarlega mikið úr því að vera últra maóismi og kommúnismi yfir í það að vera flokkur sem að umber kapítalisma og gerir það sannarlega og það hefur hann gert í smá skrefum," segir Magnús.

Hér áður fyrr voru einu félagarnir í kommúnistaflokknum bændur og verkamenn, en nú eru þar einnig iðnjöfrar og kaupahéðnar.

Kommúnistaflokkurinn er í raun eini flokkurinn í landinu, og á kínverska þjóðþinginu eru í raun aðeins teknar ákvarðanir sem eru fyrir fram samþykktar af yfirstjórn flokksins. Meðlimir hans eru yfir níutíu milljónir, og á toppnum trónir núverandi leiðtogi, forseti landsins, Xi Jinping. 

epa06597780 Chinese President Xi Jinping meets with Republic of Korea's National Security Advisor Chung Eui-Yong (not pictured) and South Korean Ambassador to China Noh Young-min (not pictured) at the Great Hall of The People in Beijing, China, 12
Xi Jinping, forseti Kína. Mynd: EPA-EFE - GETTY IMAGES / POOL
Xi Jinping, forseti Kína.

Hinn framsækni Xi Jinping

Víkur þá sögunni til dagsins í dag, til mannsins sem stóð á Torgi hins himneska friðar á þriðjudaginn og ávarpaði þjóð sína. Xi Jinping, forseta Kína. Forsetinn er merkilegur fyrir margra hluta sakir. 

Hann er til að mynda fyrsti formaður flokksins sem Deng Xiaoping sem kemst til valda af eigin rammleik, en Deng Xiaoping hafði handvalið formenn flokksins allt til dauðadags. Hu Jintao, fyrirrennari Xis á meira að segja skipan sína í embætti Deng að þakka, þótt hann hafi tekið við formennsku 2002 en Deng geispað golunni 1997. 

Á meðan Hu Jintao þótti nokkuð linur leiðtogi, þykir Xi Jinping ólíkur forvera sínum, og forverum sínum öllum. Hann tók strax til hendinni við að færa meiri völd yfir á forsetaskrifstofuna og fer í víðtækar stefnubreytingar. Hann berst til að mynda af fullum krafti gegn spillingu í landinu, sem hafði þróast á stjórnartíð fyrirrennara hans í starfi - og þannig jók hann vinsældir sínar meðal almennings og viðhélt trú fólksins í landinu á flokknum. 

epa07884800 A picture released by Xinhua News Agency shows military vehicles rolling past Tiananmen Square during a parade celebrating the 70th Anniversary of the founding of the country on Tiananmen Square in Beijing, China, 01 October 2019. China commemorates the 70th anniversary of the founding of the People's Republic of China on 01 October 2019 with a grand military parade and mass pageant.  EPA-EFE/XINHUA NEWS AGENCY HANDOUT MANDATORY CREDIT, ONE TIME EDITORIAL USE ONLY, NO SALES HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
 Mynd: EPA-EFE - XINHUA NEWS AGENCY
Hersýning á torgi hins himneska friðar þann 1. október síðastliðinn.

Stefnubreyting í alþjóðamálum

Xi Jinping hefur þó ekki breytt öllu. „Þegar hann tók við völdum töldu margir að hann væri mikill umbótasinum þegar kæmi að efnahagsmálum, en það hefur ekki gengið eftir," segir Magnús og bendir á að Xi hafi ekki dregið úr umsvifum ríkisfyrirtækja í Kína eins og vonir stóðu til, nema síður sé.

Í utanríkismálum og alþjóðamálum hefur þó orðið töluverð stefnubreyting. Deng Xiaoping vildi ekki að Kína otaði sínum tota á alþjóðavettvangi og héldi sig frekar til hlés, en Xi Jinping hefur tekið stóra sviðinu fagnandi og Kína er orðinn stór þátttakandi á alþjóðasviðinu. Þetta er mikil stefnubreyting frá stjórnartíð Hu Jintaos. 

Og óhætt er að segja að efnahagslega séu Kínverjar orðnir stórveldi. Kína er mikilvægasti viðskiptavinur yfir hundrað landa í heiminum. Kínverjar eru til dæmis aðsópsmiklir í þriðja heiminum og hafa gert fríverslunarsamning við litla Ísland, meðal annars. 

Og svo er það Belti og braut, hugtak sem við höfum heyrt kastað fram, hugmynd sem er í stöðugri þróun. Belti og braut er nokkurs konar innviða- og fjárfestingaverkefni, sem felst í stórauknum umsvifum bæði í lestarsamgöngum og uppbyggingu hraðbrauta í Kína, og í uppbyggingu hafna sem tengja eiga Kína betur við umheiminn. Belti og braut hefur markað utanríkisstefnu Xi Jinping síðustu ár. 

„Upphaflega átti þetta bara að endurvekja gömlu silkileiðna, landleiðina og sjóleiðina, svo hefur þetta útvíkkast og fleiri staði og útvíkkast út um allan heim í rauninni," segir Magnús.

Kína sigrar ekki heiminn með vopnavaldi

Og við vitum í raun mjög lítið um það hverjar raunverulegar ástæður þessarar áherslu á aukið aðgengi annarra þjóða að kínverskum mörkuðum eru, aðrar en mögulega þær að gera aðrar þjóðir háðari Kína og viðskiptum við ríkið. 

„Já eflaust. Ég hef sagt það stundum að Kínverjar munu aldrei sigra heiminn með vopnavaldi, það er frekar á hinu efnahagslegu sviði sem þeir munu frekar sigra heiminn. Og þetta er kannski einhver liður í því að gera þjóðir háðari sér og tengja þjóðirnar kannski meira efnahagslega við Kína. Það er örugglega einhver hluti af þessu," segir Magnús. 

Mynd með færslu
Eilítið fleiri segjast treysta Trump til góðra verka á alþjóðavettvangi en Xi Jinping. Mun fleiri segjast þó vantreysta Trump en kollega hans í Peking. Mynd:
Xi JInping og Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.

Viðskiptastríð við Bandaríkin

Og viðskiptin eru Kínverjum kær, og því kom það illa við kínversk stjórnvöld þegar Donald Trump, Bandaríkjaforseti, lýsti yfir viðskiptastríði við Kína í mars á síðasta ári - og lagði í júní sama ár tuttugu og fimm prósenta innflutningstolla á rafmagns- og hátæknivörur frá Kína. Kínverjar sáu sig knúna til að svara í sömu mynt, þeir ættu engra annarra kosta völ. 

„Trump ákveður að gera þetta þannig að fara í sóló stríð við Kínverja," segir Magnús.

Þessa ákvörðun Trumps má rekja til þess sem hann kallaði „ósanngjarna viðskiptahætti" Kínverja, Kínverjar stunduðu ríkisstyrktan hugverkaþjófnað og Bandaríkin töpuðu illa á viðskiptum við Kína, en viðskiptajöfnuður Bandaríkjanna gagnvart Kína var neikvæður um rúmlega 375 milljónir bandaríkjadollara árið 2017. Trump vill þó sjálfur meina að sú upphæð sé mun hærri.

Þrátt fyrir miklar samningaviðræður milli ríkjanna stendur deilan enn, og Kínverjar láta engan bilbug á sér finna.

„Meira að segja núna undanfarið hafa Kínverjar leitast sérstaklega við að setja tolla á vörur frá svæðum þar sem að Trump nýtur stuðnings, þannig að það bíti á hann pólitískt," segir Magnús.

Í síðasta mánuði tilkynnti Trump að fyrirhugaðri hækkun á innflutningstollum á vörum frá Kína, úr 25 prósentum í 30, yrði frestað, að beiðni kínverskra stjórnvalda - vegna 70 ára afmælis Alþýðulýðveldisins sem var haldið upp á með pompi og prakt í vikunni. Erlendir fréttaskýrendur segja þetta merki um að sátt gæti verið í vændum milli þessa efnahagslegu stórvelda. 

epaselect epa07884591 Anti-government protesters carry an anti-China banner that reads 'Birthday For A Killer' while marching through the streets in protest on National Day in Hong Kong, China, 01 October 2019. Hong Kong has witnessed several months of ongoing mass protests, originally triggered by a now withdrawn extradition bill to mainland China that have turned into a wider pro-democracy movement.  EPA-EFE/VIVEK PRAKASH
Mótmælendur í Hong Kong gagnrýna ráðamenn í Kína harkalega. Mynd: EPA-EFE - EPA
Afmæli fyrir morðingja? Mótmælendur í Hong Kong héldu ekki upp á hátíðarhöldin þann 1. október eins og nágrannar þeirra í Peking.

Kína verður áfram umdeilt

Af nægu er að taka þegar fjallað er um stórveldið Kína, land sem telur yfir einn komma fjóra milljarða manna - á sér flókna sögu og ekki síður flóknari samtíma. Kommúnistaflokkurinn er ekki síður umdeildur í dag og á tímum Maós, þótt landið sé allt annað. Málfrelsi er af skornum skammti, og samkvæmt alþjóðlegum tölum yfir nútíma þrælahald teljast tæpar fjórar milljónir Kínverja þrælar. Samband Kína við Tavían og nærliggjandi eyjar, sem Kína gerir tilkall til, er einnig umdeilt þrætuepli sem hefur kostað mörg mannslíf. Þá er vaxandi óánægja meðal íbúa Hong Kong með stjórnvöld í Peking, og sér ekki fyrr endan á þeirri óánægju - eins og Heimskviður hafa fjallað um.

En eitt er víst, Kína er vaxandi stórveldi, nú sem aldrei fyrr. 70 árum eftir stofnun Alþýðulýðveldisins virðist fátt benda til þess að Kínverjar séu að draga saman seglin. Og Cui gamla, þessi sem man tímana tvenna, lætur það þó ekki á sig fá og vonar að pólitískum umbrotatímum sé að endingu lokið. Hún man þegar Alþýðulýðveldið var stofnað, hún man eftir framfarastökkinu mikla, og menningarbyltingunni. 

Hennar leiðtogi í dag er Xi Jinping, sem í krafti nýrra stjórnarskrárbreytinga mun geta setið lengur í embætti en forverarnir. Leiðtogi sem horfir út á við, út fyrir landsteinana, stendur í milliríkjadeilu við Bandaríkin á sama tíma og hann vinnur að uppbyggingu hafnarmannvirkja og lestarsamgangna sem tengja Kína við umheiminn. Hver arfleið Xi Jinping verður, verður tíminn að leiða í ljós. En það gæti orðið langur tími þangað til. 

Guðmundur Björn Þorbjörnsson
dagskrárgerðarmaður