Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Khan með yfirburðastöðu

26.07.2018 - 11:45
Erlent · Asía
epa06911074 A person reads a Pakistani newspaper with the front page bearing news of the general elections in Karachi, Pakistan, 26 July 2018. Millions of Pakistanis turned out for parliamentary elections on 25 July, despite the threat of violence by
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Pakistanska réttlætishreyfingin, flokkur krikket-kappans fyrrverandi Imrans Khans, er með yfirburðastöðu þegar búið er að telja nærri helming atkvæða úr þingkosningunum í Pakistan í gær. Flest bendir því til að Khan verði næsti forsætisráðherra landsins. Ásakanir eru uppi um víðtæk kosningasvik.

Að sögn breska útvarpsins BBC var flokkur Khans með forystu í 119 kjördæmum af 272 þegar búið var að telja 49 prósent atkvæða.

Pakistanska múslimabandalagið, flokkur Nawaz Sharif, fyrrverandi forsætisráðherra, hafi þá verið með forystu í 61 kjördæmi og Pakistanski þjóðarflokkurinn í 40. Þar er í forystu Bilawal Bhutto Zardari, 29 ára sonur Benazir Bhutto, fyrrverandi forsætisráðherra, sem ráðin var af dögum fyrir ellefu árum.

Ekki er vitað hvenær talningu lýkur og endanleg úrslit liggja fyrir, en ef niðurstaðan verður eitthvað á þessa leið þarf Khan að leita til annarra við myndun ríkisstjórnar, því til að hafa meirihluta þarf 137 þingsæti.

Keppinautar Khans hafa uppi ásakanir um víðtæk kosningasvik og flokkur Sharifs og nokkrir minni flokkar segjast ekki ætla að viðurkenna úrslitin.

Kjörstjórn vísar því á bug að brögðum hafi verið beitt flokki Khans í hag og pakistanski herinn segir ekkert hæft í ásökunum um að hann hafi beitt sér sérstaklega gegn fylgismönnum Sharifs í aðdraganda kosninganna.