Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Keyrt á hreindýr við Reyðarfjörð

04.02.2016 - 16:14
Mynd með færslu
 Mynd: Landinn - RÚV
Seint í gærkvöldi varð talsvert tjón á bifreið sem keyrði á hreindýr rétt austan við Reyðarfjörð. Ökumann sakaði ekki en lóga þurfti dýrinu. Lögreglan á Austurlandi vill beina þeim tilmælum til ökumanna að fara með sérstakri gát þegar skyggni er vont og færð á vegum slæm. Hópar hreindýra sækja á láglendi og niður undir byggð þegar veður eru válynd á þessum tíma árs, að sögn Jónasar Vilhelmssonar yfirlögregluvarðstjóra á Austurlandi. Gert er ráð fyrir úrkomu og afleitu ferðaveðri á fjallvegum.

Einnig er spáð úrkomu, hvassviðri og afleitu ferðaveðri á Norðausturlandi og Austfjörðum, segir í tilkynningu frá Vegagerðinni. Enn er þó ekki ljóst hvort fjallvegum verði lokað.
Á það einkum við um Víkurskarð og Fjarðarheiði fyrst, síðan aðrar leiðir. Þar má nefna Mývatns og Möðrudalsöræfi, Oddskarð, Fagradal,Vatnsskarð eystra og Hófaskarð. Veðurspá gerir ráð fyrir að veður skáni fyrir hádegi á morgun.

arnaldurmf's picture
Arnaldur Máni Finnsson
Fréttastofa RÚV