Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Kettir kenna mönnum að hætta allri meðvirkni

Mynd: Pixabay / Pixabay

Kettir kenna mönnum að hætta allri meðvirkni

09.07.2019 - 13:37

Höfundar

Með skeytingarlausu atferli sínu og yfirgengilegri sjálfselsku getur kötturinn verið góð fyrirmynd þeim sem vilja losna við meðvirkni og slæma sjálfsmynd. Þeim er nefnilega alveg sama. Mal þeirra getur einnig hjálpað til við að láta bein gróa hraðar.

Það þekkja það margir kattaeigendur að fá sér kött og telja sig vera að eignast hann, en átta sig fljótlega á að því er jafnvel öfugt farið. „Kötturinn býr hjá þér en hann er alls ekki í þinni eigu. Þeir færa sig hiklaust um set og flytja inn á nýtt heimili hugnist þeim svo. Ef það er betri matur til dæmis í næsta húsi þá tekur hann bara pokann sinn og fer þangað,“ segir Áslaug Björt Guðmundardóttir rithöfundur. Hún gaf nýlega út bókina Lífsspeki kattarins en bókin er sögð tilvalin fyrir þá sem vilja læra af þeim sem listina kann. Að sögn höfundar er ýmislegt í eðli kattarins sem manninum væri hollt að tileinka sér.

Kettir haga sér eins og þeim sýnist

Kötturinn er öllum borgarbúum og sveitafólki kunnugur og ekki síst er hann áberandi á sumrin þegar kettir spígspora um miðbæinn í sólinni eins og Reykjavík sé þeirra, sóla sig á bílþökum, heimta kattamat og klapp eftir atvikum á milli þess sem þeir myrða bæði fugla og fiðrildi. Það er gjarnan talað um köttinn sem lítið rándýr sem tekist hefur með kænsku sinni að temja mannskepnuna, við mannfólk gefum kettinum húsaskjól og mat en hann gefur ekki neitt á móti, heldur hagar sér eins og honum sýnist eftir eigin þörfum.

Mynd með færslu
 Mynd: Áslaug Björt Guðmundardóttir
Stoltur höfundur með bókina

Lækning við meðvirkni

Meðvirkni er landlægt vandamál, það þekkja margir Íslendingar. Hún getur verið lýjandi fyrir þann sem henni er haldinn og aðstandendur. Það er gjarnan litið á meðvirknina sem samfélagsmein sem erfitt er að ráða við og uppræta. Kettir eru hins vegar ekkert meðvirkir og geta því kennt fólki sem hrjáist af henni ýmislegt. Þeir eru í eðli sínu lausir við þörf fyrir vinsældir og gera ekkert til að þóknast öðrum og umhverfinu. Þeir myndu ekki mæla eigið gildi í lækum á Facebook, hefðu ekki þörf til að setja inn glansmynd af lífi sínu á Instagram, myndu aldrei mæta í afmæli sem þeir nenntu ekki í eða reyna að sleikja upp leiðinlega frænda sinn. Þeir kæra sig kollótta um flest annað en eigin þægindi.

„Kettir eru bara eru eins og þeir eru, öfugt við til dæmis hundinn,“ segir Áslaug og bætir við: „Nú veit ég að ég er komin á hálan ís.  Ég elska þá líka en þetta er annað eðli. Þeir vilja haga sér eins og til er ætlast en það gerir kötturinn ekki.“ En eru kettir ekki einfaldlega narsissistar? „Jú og alveg dásamlegir sem slíkir. Þeir eru sáttir í augnablikinu og sjálfum sér nægir.“

Mal lækkar blóðþrýstinginn

En kettir geta ekki eingöngu læknað fólk af meðvirkni, samkvæmt Áslaugu hafa rannsóknir sýnt fram á að þeir geti haft margvíslegan lækningamátt. „Mal katta er til dæmis á ákveðinni tíðni sem lætur bein gróa hraðar og lækkar blóðþrýsting. Þeir hafa heilunarmátt með nærverunni, það er óvéfengjanlegt.“

Nokkur helstu kattaráðin úr bók Áslaugar:

- Veldu félagsskap þinn og hikaðu ekki við að forðast þá sem þér finnst hafa ónotalega nærveru.
- Ef þér líkar ekki staðurinn og stundin - yfirgefðu samkvæmið.
- Komdu hreint fram og biddu um það sem þú vilt frá öðrum.
- Lærðu að njóta einverunnar og fagnaðu sjálfum þér í eigin félagsskap.
- Virtu sjálfan þig og sýndu öðrum hvernig þú vilt láta koma fram við þig.
- Vertu sjálfstæður og öðruvísi - leiktu ekki alltaf eftir reglum samfélagsins. 
- Vertu gallagripur og gerðu uppsteyt þegar þörf krefur.

Rætt var við Áslaugu á Morgunvaktinni á Rás 1 og hlýða má á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.

 

Tengdar fréttir

Pistlar

Borg sem er stjórnað af köttum

Tónlist

Tónlist fyrir ketti

Menningarefni

Hver vill eignast gamlan kött?

Norður Ameríka

Leigir stúdíóíbúð bara fyrir tvo ketti