Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Kerfill vaxandi vandamál á Húsavík

15.08.2019 - 12:20
Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RÚV
Náttúrustofa Norðausturlands hefur tekið saman útbreiðslu kerfilstegunda í landi Húsavíkur, allt frá Bakka að Saltvík. Kerfill þekur í það minnsta tæplega 50.000 fermetra, sem er á við sjö fótboltavelli.

Smári Lúðvíksson, umhverfisstjóri Norðurþings segir að kerfilinn eigi eftir að verða til mikilla vandræða. „Eðli svona ágengra plantna er að það er veldisvöxtur í dreifingu og þessi planta sérstaklega dreifir sér mjög hratt þegar hún kemst á strik. Þannig að, já, þetta á eftir að verða mikið vandamál.“ 

Hafa ekki reynt framandi leiðir

Ýmislegt hefur verið reynt til að hefta útbreiðslu kerfils. Fyrr í sumar sögðum við frá því að í Bolungarvík var grísum beitt á kerfil. Þá hefur sauðfé einnig verið beitt á plöntuna. Hafa Húsvíkingar hugleitt einhverjar slíkar aðgerðir?

„Við höfum ekki farið í að skoða aðrar leiðir til að uppræta kerfilinn. Það eru önnur sveitarfélög og bara aðrir aðilar að skoða margar aðrar áhugaverðar leiðir í þeim málum en við höfum ekki farið í það ennþá.“

Lúpínan einnig skæð

Smári segir einnig mikið um lúpínu sem hefur áhrif á útbreiðslu kerfilsins. „Lúpínan er planta sem að býr til jarðveg og er virkilega að breyta landslaginu þannig að það geta komið aðrar plöntur seinna og því miður er lúpínan að búa til frjóan jarðveg og meðal annars eru það plöntur sem koma inn í þann frjóa jarðveg, kerfillinn. Þannig að hann er að koma inn í gamlar lúpínubreiður núna og þar er hann í dag. Þannig að fjallið sem er blátt hjá okkur í dag gæti orðið hvítt eftir nokkur ár." 

Kortlagning tók tvö ár

Náttúrustofan hóf að kortleggja kerfilinn sumarið 2016 og unnið var í áföngum til ársins 2018. Kerfillinn hefur með tímanum náð að dreifa sér verulega og myndar víða þéttar breiður. Skógarkerfill er nú flokkaður sem framandi ágeng tegund. Hér á landi er hann helst að finna í vegköntum, frjósömum, aflögðum túnum og á árbökkum. 

Fréttin hefur verið uppfærð.