Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Kennir Íran um dróna-árásir á Sádi Arabíu

14.09.2019 - 21:22
Mynd með færslu
Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Mynd:
Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, gaf það sterklega í skyn á Twitter í kvöld að Íran væri ábyrgt fyrir dróna-árásum á tvær olíuvinnslustöðvar í Sádi Arabíu í morgun. Engar sannanir væru fyrir því að árásirnar hefðu komið frá Jemen. Bandaríkjaforseti hefur heitið stjórnvöldum í Sádi Arabíu aðstoð við að verja sig gegn frekari árásum.

Árásirnar í morgun gætu haft áhrif á olíuverð eftir helgina þar sem olíuframleiðsla Sádi Arabíu er aðeins helmingur þess sem venja er. Landið framleiðir tíu prósent allrar olíu í heiminum.

Uppreisnarhreyfing Húta í Jemen lýsti árásinni á hendur sér í morgun en Pompeo virðist sannfærður um að Íran eigi þar sök að máli.  „Íran hefur með fordæmalausum hætti ráðist á einn helsta orkuframleiðanda heims. Það eru engar sannanir fyrir því að árásirnar hafi komið frá Jemen,“ skrifaði Pompeo á Twitter í kvöld.  „Við hvetjum þjóðir heims til að fordæma árásirnar og munum gera allt sem við getum til að draga Íran til ábyrgðar.“

Stjórnvöld í Teheran hafa stutt við bakið á Hútum í stríðinu við Sádi Arabíu og sakaði Pompeo íranska ráðamenn um að leika tveimur skjöldum í deilunni.  Opinberlega þættust forseti landsins og utanríkisráðherra leita friðsamlegra lausna. Á bak við tjöldin hefðu stjórnvöld í Teheran komið að meira en hundrað dróna-árásum á Sádi Arabíu. Stríðið í Jemen hefur staðið í meira en fjögur ár og lagt innviði landsins í rúst.  Þar ríkir nú algert neyðarástand í mannúðarmálum.

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, sendi einnig frá sér yfirlýsingu í kvöld eftir að hafa rætt við Mohammed bin Salman, krónprins Sádi Arabíu. Í yfirlýsingunni fordæmdi hann árásirnar og sagði þær ala á vantrausti enda beindust þær gegn efnahagskerfi heimsins. Bandaríkin ætli að fylgjast grannt með framvindu mála og gera sitt til að tryggja stöðugleika á olíumörkuðum. Trump bauð krónprinsinum jafnframt fram aðstoð við að verja Sádi Arabíu gegn frekari árásum. Sádar eru þriðja sæti yfir þær þjóðir sem kaupa mest af vopnum í heiminum, samkvæmt umfjöllun New York Times.