Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Kennari við Egilsstaðaskóla settur í sóttkví

25.02.2020 - 19:16
Mynd með færslu
 Mynd: Óskar Vignir Bjarnason - RÚV
Kennari við grunnskólann á Egilsstöðum hefur verið settur í sóttkví heima hjá sér. Pétur Heimisson, framkvæmdastjóri lækninga við Heilbrigðisstofnun Austurlands, staðfestir þetta í samtali við fréttastofu. Hann segir þetta gert með vísan í leiðbeiningar sem finna má á vef landlæknis.

Í bréfi sem skólastjóri skólans sendi forráðamönnum í dag kemur fram að kennarinn hafi verið á skíðasvæði í einu af þeim fjórum héruðum á Norður-Ítalíu þar sem COVID-19 veiran hefur greinst. 

Landlæknir hefur mælst til þess að þeir sem komi frá þessum héruðum haldi sig heima í 14 daga í varúðarskyni en hefur jafnframt bent á að skíðasvæðin í þessum héruðum séu utan áhættusvæða. Því hefur til að mynda ekki verið ráðið gegn ónauðsynlegum ferðum þangað enda hafa engin tilfelli komið þar upp enn sem komið er.

Í  bréfi skólastjórans kemur fram að kennarinn sé frískur og að veiran hafi ekki greinst á skíðasvæðinu sem hann dvaldi á. Þá sé heldur ekki grunur um að hann hafi verið í námunda við neinn veikan.   

Heimasóttkví er mjög íþyngjandi úrræði ef miðað er við þær leiðbeiningar sem gefnar eru á vef landlæknis. Hann á að halda sig heima og hafa bein samskipti við sem fæsta. Hann má ekki fara út af heimili sínu nema brýna nauðsyn beri til og má ekki fara til vinnu eða skóla þar sem aðrir eru.  

Þá má hann ekki fara á mannamót, í líkamsrækt eða fara út í búð sjálfur. Hann má hins vegar fara út á svalir og í bíltúr á einkabíl en má ekki fara í bílalúgu veitingastaða. 

Þetta er að minnsta kosti þriðja heimasóttkvíin sem fréttist af. Fjölskylda sem kom með flugi Evrópusambandsins frá Wuhan á föstudag er í heimasóttkví þrátt fyrir að staðfest hafi verið að ekkert þeirra sé smitað. Þá var fjölskylda sem kom frá Peking einnig sett í heimasóttkví. Hún reyndist heldur ekki smituð. Landlæknir hefur mælst til þess að allir ferðamenn sem komi frá Kína haldi sig heima í fjórtán daga.

Þá var greint frá því að sjö Íslendingar væru á hóteli á Kanarí sem hefur verið sett í sóttkví eftir að gestur þar greindist með COVID-19 veiruna.