Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Kennarar fá 11% hækkun: „Varalitur á svín“

30.11.2016 - 11:45
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Laun grunnskólakennara hækka um tæp ellefu prósent og þeir fá rúmlega tvö hundruð þúsund króna eingreiðslu, samkvæmt nýjum kjarasamningi. Ragnar Þór Pétursson, trúnaðarmaður kennara, segir að erfitt verði að fá hann samþykktan enda sé hann eins og þeir samningar sem kennarar hafa áður fellt. „Þótt þú setjir varalit á svín, þá er það ennþá svín,“ segir Ragnar Þór um nýja samninginn.

Samninganefndir Félags grunnskólakennara og Sambands íslenskra sveitarfélaga skrifuðu undir nýjan kjarasamning í gærkvöldi. Kennarar hættu því við að ganga út úr skólum klukkan hálf eitt í dag eins og til stóð. Samningurinn verður kynntur næstu daga og eftir það greiða kennarar atkvæði um hann, frá 6. til 12. desember. Kennarar hafa fellt síðustu tvo samninga sem bornir hafa verið undir þá.

Samkvæmt heimildum fréttastofu felur nýi samningurinn í sér rúmlega sjö prósenta hækkun launa strax og þriggja og hálfs prósents hækkun í mars, samtals tíu komma átta prósenta hækkun. Þá fá kennarar rétt rúmlega tvö hundruð þúsunda króna eingreiðslu um áramótin. Samningurinn er til eins árs.

Varalitur á svín

Félag grunnskólakennara hitti trúnaðarmenn kennara á fundi í morgun, þar sem efni samningsins var kynnt. Ragnar Þór Pétursson, trúnaðarmaður kennara í Norðlingaskóla, segir að margir kennarar hafi vonast eftir meiri hækkunum.

„Viðbrögðin hafa verið blendin. Menn eru varfærnir og ég hef ekki ennþá heyrt í neinum sem var búinn að ákveða að segja upp sem hefur ákveðið að draga uppsögn til baka út frá því sem menn vita. Og ég er sannast sagna ekkert allt of bjartsýnn á að það breytist með frekari kynningu,“ segir Ragnar Þór.

Þannig að þú gerir jafnvel ráð fyrir að þessi samningur verði felldur?

„Ég er ekki alveg viss um það. Það verður mjög erfitt að koma honum í gegnum atkvæðagreiðslu. Þótt þú setjir varalit á svín, þá er það ennþá svín. Og þessi samningur er í grunninn í raun og veru sami samningur og við höfum fellt tvisvar. En munurinn er að hann gildir skemur. Þannig að ef menn hafa raunverulega trú á því að eitthvað muni breytast á þessum gildistíma getur verið að menn samþykki hann og kaupi frið. En ef menn hafa ekki trú á að það verði róttækar breytingar á málum þá held ég að þessi samningur eigi lítinn möguleika á að fara í gegnum atkvæðagreiðslu.“