Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Kennarar á landsbyggðinni vilja síður hætta

28.11.2016 - 12:21
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Um hundrað kennarar hafa sagt upp störfum á Suðvesturhorni landsins, flestir í Reykjanesbæ og í Breiðholti í Reykjavík. Uppsagnir virðast haldast í hendur við atvinnuástandið en kennarar á landsbyggðinni vilja margir frekar fara í verkfall en segja upp.

Af þeim hundrað grunnskólakennurum, sem sagt hafa upp störfum vegna óánægju með kaup og kjör, eru hlutfallslega langflestir í Reykjanesbæ, en þar hafa 40 kennarar sagt starfi sínu lausu. Af þeim 56 kennurum, sem hafa sagt upp í Reykjavík, starfa 33 í Breiðholti. Ekki eru teljandi uppsagnir kennara á landsbyggðinni. Undanfarið hafa fjórir af þrjátíu kennurum á Hornafirði sagt upp og farið í störf við ferðaþjónustu, þó ekki beinlínis í tengslum við kjarabaráttu kennara.

Atvinnuástand áhrifavaldur

Bæjarstjóri Reykjanesbæjar sagði í fréttum okkar í gær að gott atvinnuástand á Suðurnesjum hafi áhrif. Sigríður Ósk Atladóttir, umsjónarkennari og trúnaðarmaður kennara á Djúpavogi, segir að mikill hiti sé í kennurum á Austfjörðum, þó að þeir vilji síður segja upp. Hún tekur undir það að atvinnuástand hafi áhrif. „Þar sem að atvinnutækifærin eru ekki eins mikil og kannski á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjunum, auðvitað er ferðaþjónusta hér líka en hún er ekki svona mikil allt árið um kring, þannig að það er kannski ekki annað að fara ef þú segir starfi þínu lausu í skólanum.“ 

Sigríður bendir á að skólastarfið á landsbyggðinni sé gjörólíkt starfinu á höfuðborgarsvæðinu. Álagið sé margfalt meira. „Það vilja allir fá betri laun og laun samkvæmt menntun og ábyrgð en úti á landi er skóli ekki bara skóli. Skólinn þarf í raun og veru að taka á miklu fleiri hlutum. Sérfræðiþjónusta er eins og gefur að skilja minni en í Reykjavík. Fólk kannski langar að skipta um vinnu en það er bæði kannski lítið um atvinnutækifæri og svo þessi samfélagslega ábyrgð sem kennarar hafa.“