Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Kemur til greina að svipta lögbrjóta styrkjum

07.03.2016 - 11:40
OLYMPUS DIGITAL CAMERA
Mynd úr safni Mynd: Atli Harðarson - Flickr
Dýraverndarsamband Íslands hefur skorað á landbúnaðarráðherra og Bændasamtökin að koma inn í lög og búvörusamninga ákvæði um að Matvælastofnun verði heimilt að fella niður opinberar greiðslur til bænda sem brjóta lög um velferð dýra. Bændasamtökin taka vel í tillöguna, en lögðust gegn slíku þegar lögin voru sett.

Átti að vera inni í dýravelferðarlögum

Lög um velferð dýra tóku gildi í ársbyrjun 2014. Yfirlýst markmið þeirra er að stuðla að velferð dýra, það er að segja að þau séu laus við vanlíðan, hungur og þorsta, ótta og þjáningu, sársauka, meiðsli og sjúkdóma, í ljósi þess að dýr eru skyni gæddar verur. Ennfremur að þau geti sýnt sitt eðlilega atferli eins og frekast er unnt.

Í frumvarpinu, sem Steingrímur J. Sigfússon, þáverandi atvinnuvegaráðherra, mælti fyrir á Alþingi, var lagt til að meðal þvingunarúrræða, sem Matvælastofnun hefði til að taka á lögbrotum, væri heimild til að fella niður ríkisstyrki til bænda sem brjóta á dýrum. Bændasamtök Íslands lögðust gegn þessu í umsögn til atvinnuveganefndar, og töldu slíkt stangast á við fyrirmæli annarra laga, svo sem búvörulaga og búnaðarlaga, auk þess sem þetta væri í andstöðu við skuldbindingar ríkisins í búvörusamningum og búnaðarlagasamningum. Bændasamtökin lögðu til að ákvæði um dagsektir yrði látið nægja. Undir þetta tók Landssamband kúabænda sem taldi úrræðið meðal annars vera til þess fallið að draga úr getu búfjáreigenda til að bæta aðbúnað búfjár.

Ákvæðið tekið út eftir mótmæli bænda

Í nefndaráliti atvinnuveganefndar, sem nefndarmenn úr stjórnar- og stjórnarandstöðuflokkum stóðu að, kemur fram að nefndin hafi rætt úrræðið ítarlega og talið það mundu virka vel og verða skilvirkt. Eðlilegt sé að krefja þá sem ríkið semur við um að fylgja landslögum. Óeðlilegt sé að menn þiggi greiðslur úr ríkissjóði á sama tíma og þeir brjóta lög.

Á móti var bent á í nefndarálitinu að úrræðið ætti sér ekki stoð í gildandi búvöru- og búnaðarlagasamningum sem þá höfðu nýlega verið endurnýjaðir. Einnig stangaðist úrræðið að mörgu leyti á við ákvæði búvörulaga og búnaðarlaga. Í breytingartillögu nefndarinnar var ákvæðið tekið út, meðal annars í ljósi þess að ekki hefði verið skorið úr um hve langt löggjafinn gæti í raun og veru gengið vegna búnaðar- og búvörulagasamninga og lagalegs grundvallar þeirra.

Í dýravelferðarlögunum er því ekki að finna þessa heimild. Matvælastofnun hefur aftur á móti önnur úrræði, svo sem dagsektir og stjórnvaldssektir.

Nefndin sagði í áliti sínu að tilvist úrræðis um að svipta bændur styrkjum væri eðlileg og í góðu samhengi við þær kröfur sem telja mætti eðlilegt að gera til þeirra sem ríkið gerir samninga við sem fela í sér ráðstöfun opinbers fjár. Nefndin óskaði því eftir að ráðherra skoðaði málið betur.

„Því beinir nefndin þeirri beiðni til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins að það taki til sérstakrar skoðunar hvort ekki sé rétt að skapa rými til upptöku úrræðisins við síðara tilefni, t.d. við endurskoðun búnaðar- og búvörulaga og endurnýjun samninga á grundvelli þeirra.“

Ekki í nýjum búvörusamningum

Ríkið skrifaði í febrúar undir nýja búvörusamninga við bændur. Þar er ekki kveðið á um heimild til að fella niður greiðslur til þeirra sem brjóta dýravelferðarlögin.

Dýraverndarsamband Íslands hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem skorað er á bændur og ráðherra að sjá til þess að þetta verði leiðrétt, eins og það er orðað, og að heimild til að fella niður opinbera styrki vegna dýraníðs verði felld inn í búvörusamninga og færð í dýravelferðarlögin.

„Dýraverndarsamband Íslands telur ótækt með öllu að ríkið styrki aðila fjárhagslega sem uppvísir eru að lögbrotum eins og dýraníði, í starfsemi sem er grundvöllur styrkveitingarinnar.“

Í áskoruninni segir að þegar komi að dýraníði eða illri meðferð dýra, sérstaklega ef atvikin eru alvarleg eða endurtekin, telji Dýraverndarsambandið að dagsektir, stjórnvaldssektir eða önnur úrræði, sem nú sé heimilt að beita dýrum til verndar, dugi ekki til. Það sé í hæsta máta óeðlilegt að halda áfram að styrkja með opinberu fé þá sem séu grimmir við dýr. Eftirlátssemi við slíkar aðstæður skaði að auki trúverðugleika allrar bændastéttarinnar sem framleiðenda fyrir neytendur.

„Við hvetjum Bændasamtök Íslands og öll aðildarfélög þeirra, sem og alla bændur, til að taka afstöðu til þess hvort þau vilja hafa í röðum sínum aðila sem njóti opinberra styrkja til dýrahalds á grundvelli samninga bænda og ríkisins og sem eru á sama tíma uppvísir að alvarlegu eða endurteknu dýraníði eins og dæmi eru um.“

Dýraverndarsambandið skorar á Bændasamtökin og Landssamband kúabænda að endurskoða afstöðu sína og láta hana í ljósi opinberlega.

Breytt afstaða Bændasamtakanna

Sigurður Eyþórsson, framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands, segir að samtökin taki vel í áskorunina. Hún hafi borist á meðan búnaðarþing stóð yfir. Ekki hafi verið tök á að leggja hana fyrir þingið, en hún verði rædd í stjórn samtakanna. Hann bendir á að framundan sé endurskoðun laga.

„Það er eðlilegt að taka þetta til skoðunar áður en frumvarp um lagabreytingar sem tengjast búvörusamningunum fer fyrir Alþingi.“

Sigurður segir að sér finnist vel koma til greina að ákvæðið verði sett inn í lögin. Eðlilegt sé að farið verði mjög vel yfir þetta nú þegar lögum verði breytt vegna búvörusamninganna.

Baldur Helgi Benjamínsson, framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda, segir að sambandið eigi eftir að fjalla um áskorunina. Hann gerir ráð fyrir að það verði gert á aðalfundi um næstu mánaðamót. Spurningin sem menn þurfi að velta fyrir sér sé hvaða aðferðir séu líklegastar til að tryggja velferð dýranna.

tryggvia's picture
Tryggvi Aðalbjörnsson
Fréttastofa RÚV