Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Kemur til greina að selja trúfélögum lóðir

06.11.2014 - 07:44
Mynd með færslu
 Mynd:
Hanna Birna Kristjánsdóttir, innanríkisráðherra, telur það koma til greina að endurskoða hvernig staðið er að úthlutun lóða undir kirkjur þjóðkirkjunnar og sambærilegt húsnæði annarra skráðra trúfélaga.

Þetta kemur fram í svari ráðherrans við fyrirspurn Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur, þingmanns Samfylkingarinnar, um lóðir fyrir trú og lífsskoðunarfélög. 

Í 5. grein laga um Kristnisjóð segir að sveitarfélögum sé skylt að leggja til ókeypis lóðir undir kirkjur og undanskilja þær gatnagerðargjaldi. Í svari Hönnu Birnu segir að lög um Kristnisjóð vísi til hinnar íslensku þjóðkirkju. Þó hafi mörg sveitarfélög  litið svo á að þeim beri einnig að leggja til ókeypis lóðir undir sambærilegt húsnæði á grundvelli jafnræðisreglunnar.  Ráðherra telur  ekkert því til fyrirstöðu að túlka lögin með þessum hætti. 

Sigríður Ingibjörg spurði ráðherrann einnig hvað það hefði kostað Guðríðarkirkju og LIndakirkju aukalega ef þessarar undanþágu nyti ekki við en þetta eru þær tvær kirkjur sem byggðar hafa verið á síðustu tíu árum.

Fram kemur í svari ráðherrans að gatnagerðargjöld Guðríðarkirkju væru rúmar fimmtán milljónir en Lindakirkju 29 milljónir.  Áætluð lóðarleiga væri í kringum 345 til 372 þúsund fyrir þessar tvær.

Lóðaúthlutunir í Reykjavík urðu óvænt að kosningamáli í síðustu sveitastjórnarkosningum þegar Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir lagði það til að borgarbúar fengju að kjósa um hvort moska rísi í Reykjavík. Þá hefur staðsetning rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar á Nýlendureitnum svokallaða einnig verið gagnrýnd.

[email protected]