Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Kemur til greina að loka United Silicon

28.03.2017 - 19:15
Mynd: Skjáskot / RÚV
Það kemur til greina að loka verksmiðju United Silicon vegna mengunar frá starfseminni, segir Björt Ólafsdóttir umhverfisráðherra. Hún tók þar með undir orð Friðjóns Einarssonar, formanns bæjarráðs Reykjanesbæjar, sem hefur krafist þess að kísilverinu verði lokað vegna arsenikmengunar. Umhverfisstofnun hefur takmarkað starfsemina meðan rannsókn fer fram en stöðvar hana ekki.

Björt sagðist í sjónvarpsfréttum RÚV hafa þungar áhyggjur af málinu. „Það er mjög erfitt að sá þessa gamaldagsstefnu vera að raungerast hér enn og aftur og þó er árið 2017. En þetta er það sem fyrri ríkisstjórnir, allar, hafa haft á stefnuskránni hjá sér. Þær hafa veitt skattaafslætti til viðlíka starfsemi, mengandi starfsemi. Það er það sem við þurfum að fást við í dag.“ Hún sagði núverandi ríkisstjórn hafa stigið stærsta græna skrefið til að veita ekki skattaafslætti til starfsemi sem þessarar

„Mér finnst það koma til greina,“ sagði Björt aðspurð hvort það kæmi til greina að loka kísilverinu. „Ég vil hjálpa Umhverfisstofnun að beita sínum ítrustu kröfum til þess að búa svo um hnútana að þetta fái ekki að viðgangast. Umhverfisstofnun hefur þessar lokunarheimildir en auðvitað verður að fara eftir lögum og reglum.“

Fréttin hefur verið uppfærð.