Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Kemur til greina að hætta með samræmd próf

15.03.2018 - 09:36
Skúli Helgason, borgarfulltrúi og formaður skóla- og frístundaráðs borgarinnar. - Mynd: RÚV / RÚV
Skúli Helgason, formaður skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur, segir að borgin hafi ekki tekið ákvörðun um það hvort hætt verði við að leggja fyrir samræmd próf í skólum borgarinnar eins og stjórnendur Garðaskóla í Garðabæ hafa gert. Ekkert sé þó útilokað í þeim efnum.

„Við erum í sjálfu sér ekki búin að taka slíkar miðstýrðar ákvarðanir hvað þetta varðar. Við erum bara búin að ákveða að við viljum fara í að skoða fyrirbærið, gera það vandlega og taka alla sem skipta máli að þeirri umræðu og síðan mótum við endanlega afstöðu til þess.  En auðvitað verðum við að hafa í huga að það er tiltekinn hópur nemenda sem eðlilega vill fara í prófið aftur, enda búinn að leggja mikla vinnu í að undirbúa sig og auðvitað á að virða það sjónarmið,“ sagði Skúli í viðtali í Morgunútvarpinu í morgun. 

Ekki tókst að leggja fyrir samræmd próf í íslensku og ensku fyrir 9.bekkinga landsins í síðustu viku vegna þess að rafræna prófakerfið reyndist ekki þola álagið þegar á reyndi.

Greint var frá þeirri ákvörðun menntamálaráðherra í gær að nemendum verði gefinn kostur á að taka aftur samræmd próf í ensku og íslensku en nemendur ráða því sjálfir hvort þeir taki þau. Þetta var niðurstaða fundar ráðherra með fulltrúum frá nemendum, Skólastjórafélagi Íslands, Félagi grunnskólakennara, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, félagi fræðslustjóra, samtökunum Heimili og skóla, umboðsmanni barna, Menntamálastofnun og sérfræðingahópi um framkvæmd samræmdra könnunarprófa. 

Skúli segir að farið hafi verið yfir hrakfallasögu samræmdu prófanna á fundi skóla- og frístundaráðs í gær. Hann segir að menntamálaráðuneytið kanni hvað hafi farið úrskeiðis í framkvæmdinni en borgin vilji fara dýpra í þetta. „Og skoða fyrirbærið samræmd próf. Það eru mjög skiptar skoðanir um gagnsemi þeirra og gildi og hversu vel við erum að nýta niðurstöðurnar. Við teljum að það sé fullt tilefni til að leggjast vandlega í þessa vinnu og taka þá að borðinu nemendur, kennara, skólastjórnendur og foreldra. Fara yfir kosti og galla. Hvernig erum við að nota þetta núna? Eigum við jafnvel betri kosti? Er raunhæfur kostur og besta í stöðunni að leggja þau hreinlega af?“

Skúli segir að engir kostir séu útilokaðir fyrirfram. „Við leggjum mikla áherslu á það að menn loki engum kostum fyrirfram og tökum bara heiðarlega umræðu um fyrirbærið.“ Einnig skipti máli að horfa út fyrir landsteinana og kanna hvernig nágrannaþjóðirnar standa að þessum málum. Í Finnlandi séu til dæmis ekki samræmd próf á grunnskólastigi. Þar sé eitt samræmt próf á landsvísu í lok framhaldsskóla og háskólarnir noti niðurstöður þeirra til að velja inn nemendur.