Það er bara rúmlega ár síðan þær mæðgur hættu að panta inn myndir, þegar það stóð ekki lengur undir kostnaði. Í dag halda þær rekstrinum gangandi með því að selja allt frá dýrafóðri til leikfanga en mesta aðdráttaraflið hefur nammibarinn sem er sá eini í bænum. Þrátt fyrir að þær séu hættar að kaupa inn myndir er fólk enn að leigja þær myndir sem til eru á lager.
,,Það er alltaf einn og einn sem kemur og tekur, eins og sjómenn sem lenda hérna inni í brælu og komast ekki á sjó, þeir koma og taka myndir til að stytta sér stundirnar," segir Svala og bætir því við að fjölskyldufólk sem er í bústað við Siglufjörð á sumrin sé duglegt að koma líka.