Kemur ekki á óvart ef kostnaður fer yfir 7 ma.

10.06.2019 - 18:33
Mynd: Jón Þór Víglundsson / RÚV
Bæjarstjóri Árborgar segir það miður að fjörutíu prósent þátttakenda í íbúakosningu hafi hafnað áformum um nýjan miðbæ. Framkvæmdir við fyrstu tvær byggingarnar eru að hefjast. Bæjarstjórinn segir að það komi ekki á óvart ef kostnaðurinn verður meiri en þeir sex til sjö milljarðar króna sem ráðgert er.

Framkvæmdir við nýjan miðbæ eru ekki langt komnar á Selfossi. Engu að síður vonast bæjarstjórinn til þess að eftir 3-4 ár verði miðbærinn tilbúinn og þar með nýr samkomustaður Selfyssinga. Byggja á tólf hús í fyrsta áfanga framkvæmdanna.

„Nú eru að hefjast framkvæmdir við fyrstu tvær byggingarnar. Það hefur dregist af ýmsum ástæðum í vetur að koma framkvæmdum af stað,“ segir Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Árborgar.

Er það ekki áhyggjuefni hversu umdeild þessi framkvæmd er?

„Það er auðvitað verra að það sé þannig í íbúakosningunni sem var góð þátttaka í, hafi 40% verið á móti. En það er of seint að hafa áhyggjur af því,“ segir Gísli Halldór.

Hafist verður handa við innkomuna í nýja miðbæinn. Áformað er að á seinni hluta næsta árs verði fyrsti áfanginn tilbúinn.

„Samtals verða þessi áfangar þrír um  23.000 fermetrar af verslunar- og þjónustuhúsnæði,“ segir Gísli Halldór.

Hvað kosta framkvæmdirnar?

„Ég held ég hafi heyrt töluna 6-7 milljarðar. Það kæmi mér ekkert á óvart ef það væri dýrara en það,“ segir Gísli Halldór.

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi