Kemur ekki á óvart að deilt sé um urðunarskatt

03.10.2019 - 23:05
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Stjórnendur sveitarfélaga eru ósáttir við frumvarp um urðunarskatt og hafa áhyggjur af því að hann verði nefskattur á íbúa. Mikilvægt sé að hann verði hvati til að flokka úrgang. 

Sem fyrr var sveitarstjórnarfólki tíðrætt um skiptingu fjár milli ríkis og sveitarfélaga á fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna sem fer fram í dag og á morgun. Gistináttaskattur, samgöngur, reglur jöfnunarsjóðs og framlög frá ríki til grunnskóla og þjónustu við fatlaða er það sem sveitarstjórnarmenn vilja bæta, ásamt nýju frumvarpi fjármálaráðherra um urðunarskatt.

„Nýjasta útspilið í fjármálalegum samskiptum milli ríkis og sveitarfélaga. Þar sem að kemur eins og þruma úr heiðskíru lofti einhvers konar álögur á sveitarfélögin og á íbúa þessa lands,“ segir Aldís Hafsteinsdóttir, formaður sambands sveitarfélaga.

„Við sjáum ekki alveg skynsemina í því að skella þessu á sem reikningi á heimili og atvinnulíf án þess að það sé rætt eða útfært þannig að það skapi raunverulegan hvata til að gera vel,“ segir Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri

„Á meðan að það er ekki möguleiki að útfæra urðunarskattinn þannig að hann falli misjafnt til á heimilum. Eftir því hversu dugleg þau eru að flokka. Þá er þetta ekkert annað en nefskattur sem kemur ekki til með að hafa þau áhrif sem honum er ætlað að gera,“ segir Aldís.

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra segir að það komi sér ekki á óvart að um urðunarskattinn sé deilt. Tilgangur frumvarpsins sé að draga úr urðun. „Ég tek eftir því að athyglin er öll á skattinn sjálfan og þá fjárhæð sem gæti komið til miðað við óbreytt ástand. Við ætlum ekki að hafa óbreytt ástand. Við ætlum að fá fólk til að flokka meira og atvinnufyrirtæki þurfa að gera sitt. Sveitarfélögin eru lykilsamstarfsaðili. Við þurfum bara að vinna úr þeim athugasemdum sem koma fram á þinginu og fá niðurstöðu í þetta mál,“ segir Bjarni.

Í stjórnarsáttmálanum var sveitarfélögum lofað gistináttaskatti. Bjarni segir að skoða þurfi áhrif þessa nýja tekjustofns á Framkvæmdasjóð ferðamannastaða og semja um þau mál við sveitarfélögin. Hvenær heldurðu að það verði að veruleika? „Það ætti að nýta þennan vetur í að klára það.“

 

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi