Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

„Kemur ekki á óvart“

22.04.2013 - 17:42
Mynd með færslu
 Mynd:
Elliði Vignisson, bæjarstjóri Vestmannaeyja, segir ákvörðun Samkeppniseftirlitsins um að samruni Bergs Hugins og Síldarvinnslunnar samrýmist lögum, ekki koma sér á óvart. Hann segir þetta engu breyta um dómsmál sem bæjarfélagið hefur höfðað vegna samrunans.

Bæjarráð Vestmannaeyja fól  Elliða að kæra söluna á útgerðarfélaginu Bergi Huginn til Samkeppniseftirlitisins í janúar.  Sú rannsókn hefur leitt í ljós að sá samruni raskar ekki samkeppni og er rannsókn málsins lokið af hálfu eftirlitsins. „Ég get ekki sagt að þetta séu vonbrigði, þetta er í takt við aðrar ákvarðanir Samkeppniseftirlitsins,“ segir Elliði

Hann áréttar þó að ákvörðun Samkeppniseftirlitsins breyti engu um það dómsmál sem bæjarfélagið hefur höfðað á hendur Síldarvinnslunni og eignarhaldsfélaginu Q444 vegna samrunans. Bærinn krefst þess að samningurinn verði ógiltur og að hann fá allan málskostnaðinn greiddan. Elliði segir að það verði að láta reyna á forkaupsréttinn, þetta ákvæði sem fiskveiðistjórnunarlögin kveða á um. „Það er ekki til hagsbóta fyrir íslenskan sjávarútveg að fyrirtækjum fækki en stækki umfram það sem þegar er orðið,“ segir Elliði. Hann telur nauðsynlegt að leiða í ljós hvort bæjarfélögin hafi í raun einhvern rétt.

Þótt Samkeppniseftirlitið hafi ákveðið að hlutast ekki um samruna Bergs Hugins og Síldarvinnslunar ákvað það að hefja nýtt stjórnsýslumál þar sem tekið verður til athugunar hvort Síldarvinnslan, Samherji og Gjögur hafi brotiði gegn banni samkeppnislaga við samkeppnishamlandi samvinnu keppinauta.