Athugið þessi frétt er meira en 13 ára gömul.

Kaupþingsmenn handteknir í nótt

11.05.2010 - 11:47
Mynd með færslu
 Mynd:
Tveir yfirmenn Kaupþings til viðbótar voru handteknir í nótt vegna yfirstandandi rannsóknar sérstaks saksóknara. Þetta eru þeir Ingólfur Helgason, fyrrverandi forstjóri Kaupþings á Íslandi og Steingrímur Kárason, framkvæmdastjóri áhættustýringar bankans. Saksóknaraembættið hefur óskað eftir því að Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður bankans mæti til yfirheyrslu og liggur fyrir að óskað verði eftir handtöku hans ytra verði hann ekki við þeirri beiðni.

Þeir Ingólfur og Steingrímur voru í æðstu stöðum innan bankans og nánir samverkamenn Hreiðars Más Sigurðssonar, forstjóra og Sigurðar Einarssonar. Eftir banakhrun fluttu þeir lögheimili sitt til Lúxemborgar þar sem þeir hafa rekið félagið Consolium, sem stofnað var seint á árinu 2008. Hreiðar Már var einnig í því samstarfi og samkvæmt blaðafregnum sinnti fyrirækið ýmiskonar þjónustu fyrir íslensk og erlend rekstrarfélög. Þeir Ingólfur og Steingrímur voru boðaðir til yfirheyrslu og komu til landsins í nótt. Samkvæmt heimildum fréttastofu RÚV voru þeir handteknir við komuna til landsins og færðir til stuttrar yfirheyrslu snemma í morgun og færðir að henni lokinni í fangaklefa. Frekari yfirheyrslur munu vera fyrirhugaðar síðar í dag en ekki hafa fengist upplýsingnar um það hvort farið verður fram á gæsluvarðhald yfir þeim tveimur.

Ljóst er að sérstakur saksóknari vill fá fleiri bankamenn, sem hafa flutt sig um set til útlanda, í yfirheyrslu. Þannig hefur Sigurður Einarsson, fyrrverandi starfandi stjórnarformaður Kaupþings, verið boðaður til landsins en hann er búsettur í Lundúnum. Embættið hefur verið í sambandi við Sigurð en hann hefur verið tregur til að mæta og hefur viljað tryggja, samkvæmt heimildum, að hann verði ekki handtekinn við komuna hingað. Engir slíkir samningar munu þó vera í boði. Hefur embættið vitneskju um dvalarstað og ætlar að leita aðstoðar ytra við að færa Sigurð til yfirheyrslu á Íslandi, ef hann sinnir ekki boðun.