Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Kaupþings- og Landsbankafólk ákært

19.03.2013 - 06:51
Mynd með færslu
 Mynd:
Sérstakur saksóknari hefur gefið út tvær ákærur gegn fyrrverandi stjórnendum Kaupþings og nokkrum stjórnendum gamla Landsbankans vegna allsherjar markaðsmisnotkunar á hlutabréfum í bönkunum.

Fréttastofa RÚV greindi frá ákærum á hendur stjórnendum Kaupþings í gær. Þær tengjast bankahruninu og snúast samtals um tugi milljarða króna. Þar er steypt saman fimm málum sem tengjast meðal annars meintri markaðsmisnotkun fyrrverandi stjórnenda Kaupþings sem taldir eru hafa reynt að halda uppi verði á hlutabréfum bankans með ýmis konar viðskiptafléttum. Fréttablaðið segir að fjórir af æðstu stjórnendum Kaupþings, þeir Sigurður Einarsson, Hreiðar Már Sigurðsson, Magnús Guðmundsson og Ingólfur Helgason séu ákærðir, auk fimm annarra starfsmanna, alls níu manns. Málið sé hið stærsta sinnar tegundar sem ákært hafi verið fyrir í heiminum og langstærsta mál sérstaks saksóknara. Fréttablaðið greinir einnig frá því að sérstakur saksóknari hafi gefið út ákæru á hendur nokkrum fyrrverandi stjórnendum gamla Landsbankans fyrir markaðsmisnotkun með hlutabréf í bankanum. Þar hafi þrjú mál verið sameinuð í eitt.

Kastljós fjallaði ítarlega um meinta markaðsmisnotkun Kaupþings, Landsbankans og Glitnis árið 2011.