Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Kaupmáttur meðalárslauna mestur á Íslandi

04.09.2019 - 14:24
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Kaupmáttur meðalárslauna var mestur á Íslandi í fyrra af OECD-ríkjunum. Meðalárslaun voru tæplega átta og hálf milljón króna hér á landi. Þau voru næsthæst í Lúxemborg og Sviss, eða um átta milljónir króna. Meðalárslaun á öðrum Norðurlöndum voru nokkuð lægri, eða tæpar sjö milljónir króna í Danmörku, tæplega sex og hálf í Noregi og um fimm og hálf í Svíþjóð og Finnlandi.

Þetta kemur fram á vef Samtaka atvinnulífsins. Árið 2017 voru meðalárslaunin næsthæst á Íslandi og hæst í Lúxemborg. Árið á undan voru þau þriðju hæst hér á landi á eftir Lúxemborg og Sviss. 

Meðalárslaun eru hæst á Íslandi, í Lúxemborg, Sviss, Bandaríkjunum og Danmörku. Árslaunin voru lægst í Mexíkó, Ungverjalandi, Slóvakíu, Portúgal og Lettlandi. 

Mikilvægt að vernda þessa stöðu

Óttar Snædal, hagfræðingur á efnahagssviði Samtaka atvinnulífsins, segir að þetta sé virkilega jákvætt og sýni hversu vel hafi gengið að undanförnu. Sá uppgangur sem hafi verið hér á landi virðist vera að skila sér í vasa launafólks. Á Íslandi sé hvort tveggja hæsti kaupmáttur meðalárslauna og jafnasta tekjudreifing innan OECD. Það sé virkilega jákvætt fyrir launafólk í landinu. Staðan sé góð. 

Nú, þegar hægi á hagkerfinu, hagvöxtur dregst saman, og greiningaraðilar geri ráð fyrir samdrætti á árinu, sé mikilvægt að við séum skynsöm og reynum að vernda þessa góðu stöðu. Við séum betur í stakk búin núna til að takast á við samdrátt en í lok síðasta þensluskeiðs, segir hann. 

Á vefsíðu Samtaka atvinnulífsins kemur fram að samanburðurinn sé gerður í kaupmáttarleiðréttum Bandaríkjadollurum. Tillit sé tekið til mismunandi verðlags í ríkjunum og endurspegla launatölurnar því hversu mikið fæst af vörum og þjónustu fyrir launin.