Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Kaupfélagið að verða uppiskroppa með vörur

29.12.2016 - 11:16
Mynd með færslu
 Mynd: Jón G. Guðjónsson
Ekkert hefur verið flogið í Árneshrepp frá því á Þorláksmessu og er farið að bera á skorti á ýmsum nauðsynjavörum í kaupfélaginu. Jón G. Guðjónsson, veðurathugunarmaður í Litlu-Ávík á Ströndum, segir að það sé orðið rjóma-og mjólkurlaust auk þess sem ýmsar aðrar vörur vanti fyrir áramótin.

Á veturna koma vörur í kaupfélagið með flugi einu sinni í viku en ekkert hefur verið hægt að fljúga það sem af er viku vegna hvassviðris eða storma.  „Þetta dugar ekki til yfir áramótin. Það er engin mjólk til í kaupfélaginu,“ segir Jón. Hann segir vel hægt að frysta mjólk; þau hjónin eigi alltaf tvær til þrjár fernur af mjólk í frystinum. Verra sé að eiga við frystan rjóma. 

„Nú er flugfélagið Ernir búið að aflýsa flugi til Gjögurs í dag, en reynt verður að fljúga á morgun til Gjögurs, en það lítur ekkert vel út með það. Ef tekst að fljúga á morgun er vikupóstur sem kemur, pósturinn í hreppnum segir að það vanti jólapóst enn til hreppsbúa, þótt póstur hafi síðast borist á Þorláksmessu,“ segir hann. 

Vöruskortur einnig í Grímsey

 

Fram kom í fréttum í gær að ekki hafi verið fært til Grímseyjar frá því á Þorláksmessu, hvort sem er með ferju eða flugi. Í búðinni skorti ýmsar vörur sem annars ættu að vera komnar, eins og mjólk, brauð og grænmeti. Grímseyingar hafa ekki fengið allan jólapóst og því eigi sumir eftir að fá jólakort og pakka. Þó verður hægt að sprengja gamla árið í burtu með flugeldum en þeir komu óvenju snemma í ár. Björgunarsveitin selur flugeldana en samkvæmt veðurspá er þó ekki sérlega líklegt að það viðri vel fyrir flugelda í eynni á gamlárskvöld.

 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV