Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Kaup Ballarin á eignum WOW hafa dregist

25.07.2019 - 12:26
Mynd með færslu
 Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd
Samningar um kaup félags bandarísku athafnakonunnar Michele Ballarin á flugrekstrartengdum eignum úr þrotabúi WOW eru ekki frágengnir. Lögmaður bandaríska félagsins segist fullviss um að báðir aðilar vilji ganga frá samningum og það muni takast á næstu dögum.

USAerospace er í eigu bandarísku athafnakonunnar Michele Ballarin.  Ballarin stefnir á að endurvekja lágfargjalda-flugrekstur á grunni hins gjaldþrota flugfélags.

Fyrir tæpum hálfum mánuði var haft eftir Sveini Andra Sveinssyni, öðrum tveggja skiptastjóra þrotabús WOW, að þrotabúið hefði selt bandaríska félaginu flugrekstrartengdar eignir þrotabús WOW og kaupverðið hefði þegar verið greitt.

Páll Ágúst, lögmaður USAerospace, segir að það hafi tekið lengri tíma en ætlað var að ganga frá kaupsamningunum. Ástæðan sé sú að forsvarsmenn bandaríska félagsins óskuðu eftir því að fá sjálfir að ganga úr skugga um að tilteknar eignir væru raunverulega til staðar í þrotabúinu.

Páll segist viss um að báðir aðilar vilji ljúka viðskiptunum og gerir ráð fyrir því að það takist á næstu dögum.