Kaup á íbúðarhúsi hluti af starfslokasamningi

15.12.2016 - 17:33
Mynd með færslu
 Mynd: Google Maps - maps.google.com
Kaup sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar á íbúðarhúsi fyrrverandi skólastjóra leik- og grunnskóla Hvalfjarðarsveitar er hluti af starfslokasamningi skólastjórans.

Þetta kemur fram á vef Hvalfjarðarsveitar í dag. Sveitarstjórn festi kaup á einbýlishúsi skólastjórans að Lækjarmel í Hvalfjarðarsveit sem er nú komið á sölu.

Skessuhorn greinir frá því að tilefni yfirlýsingar sveitarstjórnar sé umræða á meðal íbúa sveitarfélagsins sem hafi lýst furðu sinni á því að sveitarsjóður hafi keypt einbýlishúsið. Í yfirlýsingu sveitarstjórnar er tekið fram að ekki sé gert ráð fyrir því að sveitarfélagið beri fjárhagslegan skaða af kaupunum, um góða eign sé að ræða. Ekki eru veittar upplýsingar um kaupverðið, samningurinn sé trúnaðarmál, en í yfirlýsingunni segir að verðið hafi verið samkvæmt verðmati óháðs fasteignasala. Samkvæmt söluskrá fasteignarsölunnar Hákots er húsið nú til sölu á 39,9 milljónir króna.

Í tilkynningu sveitarstjórnar er tekið fram að efni og ástæður starfsloka skólastjórans verði ekki tilgreindar en að starfslokasamningar af þessu tagi séu ekki óalgengir og að í samningnum sé ekkert sem geti talist óvenjulegt. Samningurinn sé þó trúnaðarmál.

 

hallao's picture
Halla Ólafsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi