Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Kaup á hlutabréfum í Morgunblaðinu trúnaðarmál

16.05.2019 - 12:29
Mynd með færslu
 Mynd:
Eyþór Arnalds, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir að fjármögnun á kaupum hans á hlutabréfum í útgáfufélags Morgunblaðsins sé trúnaðarmál. Hagsmunaskráning hans sé í samræmi við reglur Reykjavíkurborgar.

Stundin fjallar um kaup Eyþórs Arnalds, oddvita Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, á hlutabréfum í útgáfufélagi Morgunblaðsins árið 2017. Í frétt Stundarinnar er vísað í ársreikninga eignarhaldsfélags útgerðarrisans Samherja, Kattarnefs. Þar kemur fram sala hlutabréfa að andvirði 225 milljóna króna og lán að sömu fjárhæð til ótilgreinds aðila.

Eignarhaldsfélag Eyþórs, Ramses II ehf., keypti tæplega 23%  hlut í útgáfufélagi Morgunblaðsins af Samherja árið 2017. Kaupverðið var 225 milljónir króna. Eyþór segir í samtali við fréttastofu að fjármögnun þeirra viðskipta sé trúnaðarmál. Aðspurður hvort hann þyrfti ekki að gefa upp lánveitendur í hagsmunaskráningu borgarfulltrúa segir Eyþór að hagsmunaskráning hans sé í samræmi við reglur borgarinnar. Hann segist ekki geta tjáð sig frekar um þessi viðskipti vegna trúnaðarákvæðis kaupsamningsins.

Ramses II ehf. hefur ekki skilað ársreikningi fyrir árið 2017. Í ársreikningi móðurfélags þess, Ramses ehf. kemur fram hækkun á skuldum við tengd félög að fjárhæð ríflega 226 milljóna króna.