Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Kattarplága af mannavöldum

21.03.2014 - 15:00
Mynd með færslu
 Mynd:
Bæjaryfirvöld á Fljótsdalshéraði ætla að freista þess fækka og jafnvel útrýma villiköttum á Egilsstöðum. Félagið Villikettir safnar nú undirskriftum gegn tilraunum til að útrýma þeim hér á landi. Þeir sem kvarta undan kattaplágu telja hinsvegar að í flestum tilvikum séu heimiliskettir vandamálið.

Fljótsdalshéraði hafa borist kvartanir frá fólki sem telur sig verða fyrir miklum truflunum og óþrifnaði vegna kattarplágu. Nú stendur til að veiða ketti í gildrur; koma heimilisköttum aftur til síns heima en svæfa villiketti. Björn Ingimarsson, bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs, segir að engin hætta sé á því að ómerktir heimiliskettir verði aflífaðir. Þeir verði geymdir í ákveðinn tíma og auglýst eftir eigendum enda sé auðvelt að sjá muninn á þeim og villiköttum.

Egilsstaðabúar sem fréttastofa ræddi við og hafa glímt við óþrifnað og ónæði vegna fjölda katta vilja ekki koma fram undir nafni til að forðast illdeilur við nágranna. Þeir telja að villikettir séu ekki endilega hið raunverulega vandamál heldur mikill fjöldi af skráðum og óskráðum heimilisköttum sem fái að fara óhindrað út og nota garða sem klósett. Garðeigendur séu varnarlausir gegn óþrifnaði sem fylgi því ef margir kettir búa á litlu svæði. Því ætti að skoða hvort rétt væri að banna lausagöngu katta og tryggja að högnar séu geldir til að þeir leggist ekki út. Þá leikur grunur á að fjöldi katta sem hafi lagst út séu fóðraðir og fái jafnvel húsaskjól hjá fólki sem sjái aumur á þeim. Þar sé í raun ekki um eiginlega villiketti að ræða.

Fréttstofa hefur rætt við mann sem í fjögur ár reyndi að fá eitthvað gert í miklum fjölda af óskráðum köttum í sínu hverfi. Fljótsdalshérað sagði í bréfi til mannsins ýmislegt hefði tafið aðgerðir, dýraeftirlitsmaður hefði hætt störfum, dýralæknir ekki verið starfandi um tíma, sveitarfélagið ekki haft kattargeymslu nema í nágrannasveitarfélagi og viljað bíða eftir að ný lög tækju gildi. Nú er sveitarfélaginu hinsvegar ekkert að vanbúnaði að taka á málum. Vegna áforma Fljótsdalshéraðs um að fækka villiköttum hafa samtök sem kalla sig Villiketti og berjast fyrir velferð þeirra og tilverurétti hafið í söfnun undirskrifta gegn aflífun villikatta um allt land og höfðu í morgun 176 skrifað undir og fer fjölgandi.