Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Kattareiganda bjargað úr tré

28.08.2017 - 14:08
epa04711323 A Pixie Bob cat presented during a cat exhibition in Bishkek, Kyrgyzstan, 19 April 2015. Cats breeders and owners from Kyrgyzstan gathered in Bishkek to present their feline pets.  EPA/IGOR KOVALENKO
 Mynd: EPA
Lögreglumenn og slökkviliðsmenn þurftu að láta til sín taka þegar samband var haft við Neyðarlínu og óskað eftir aðstoð við að ná ketti niður úr tré á höfuðborgarsvæðinu. Lögreglumenn mættu á vettvang eftir að hjálparbeiðnin barst og sáu þá ekki aðeins kött uppi í háu trénu heldur líka kattareigandann. Sá hafði ætlað sér að bjarga ketti sínum en ekki tekist betur upp en svo að kattareigandinn var fastur í trénu við hlið kattarins.

Frá þessu er sagt í Ársskýrslu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu fyrir síðasta ár. Þar segir frá atviki sem átti sér stað síðastliðið sumar. Lögreglumennirnir sem mættu á vettvang könnuðu hvað væri hægt að gera til að ná kettinum og eiganda hans niður. Að lokum ákváðu þeir að óska eftir aðstoð Slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu. Þaðan var körfubíll sendur á vettvang svo hægt væri að komast hærra upp í tréð en mögulegt var með hefðbundnum stiga. Við það komust kattareigandinn og kötturinn loks niður. 

Í ársskýrslu lögreglunnar segir að þarna hafi tekist giftusamlega við björgun og bætt við að kattareigandinn hafi vonandi lært sína lexíu þó hið sama verði varla sagt um köttinn.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV