Kattagjöld innleidd á Akureyri

07.03.2011 - 20:39
Mynd með færslu
 Mynd:
Kattaeigendur á Akureyri þurfa framvegis að borga bæði skráningar og leyfisgjald fyrir köttinn sinn og hver einstaklingur má ekki eiga fleiri en þrjá ketti. Þetta er samkvæmt nýrri samþykkt um katthald í bænum.

Samkvæmt þessum nýju samþykktum um kattahald á Akureyri ber eiganda kattarins að skrá hann, örmerkja og tryggja. Eigandinn borgar srkáningargjald sem er tíu þúsund krónur og leyfisgjald sem er sexþúsund krónur á ári. Einnig á að gelda alla fressketti eldri en fimm mánaða og kötturinn skal ávallt vera með ól með plötu um hálsinn þar sem skráningarnúmer kattarins og símanúmer eiganda er ritað.


Þessar reglur hafa verið samþykktar í bæjarstjórn Akureyrar en ganga ekki í gildi fyrr en þær hafa verið staðfestar í umhverfisráðuneytinu. Akureyrarbær gengur með þessum samþykktum lengra en mörg önnur sveitarfélög en fæst þeirra rukka kattaeigendur um skráningar og ársgjald, þó dæmi séu um slíkt.