Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Kattafló finnst á fleiri köttum

03.03.2016 - 13:17
Köttur að hvæsa.
 Mynd: Pixabay
Kattafló hefur greinst á fleiri köttum á höfuðborgarsvæðinu og Matvælastofnun segir hætt við því að hún sé útbreiddari hér en talið hefur verið. Mögulegt sé að uppræta flóna en til þess þurfi samstillt átak og sérstaka smitgát skuli viðhafa á dýrasýningum. Kattafló fannst á ketti á höfuðborgarsvæðinu í febrúar. Hún hefur örsjaldan fundist hér og hefur ekki verið talin landlæg.

 Eftir þetta var leitað flóa á köttum sem höfðu verið í návígi við köttinn sem flærnar fundust á. Fundust þá merki um flær en ekki kvikindin sjálf. Dýralæknastofa Dagfinns tilkynnti grun um kattafló í síðustu viku og var sá grunur staðfestur.

Kötturinn sem flærnar bar þá býr í miðborg Reykjavíkur og fer út að vild. Eigandi hans hafði oft leitað til dýralæknis vegna kláða og einkenna kattarins. Því er talið líklegt að hann hafi verið með kattaflærnar töluverðan tíma og þetta sagt líka sýna hve erfitt er að útrýma flónum. 

Dýralæknar er beðnir að taka sýni af öllum köttum og hundum sem komið er með til þeirra 14-28 mars vegna einkenna í húð. 

Þó að flærnar séu kenndar við ketti þrífast þær líka á hundum. Þær geta valdið dýrum og mönnum miklum óþægindum og veikindum. Flóaskíturinn sést betur en sjálfar flærnar, er fólki ráðlagt að kemba dýrum á hvítu handklæði og athuga hvort svört korn falla á það. Dýraeigendur eru brýndi í því að hafa samband við dýralækni ef grunur er um flóasmit. Lyf sem duga gegn þeim fáist ekki í gæludýraverslunum. 

Anna Kristín Jónsdóttir
Fréttastofa RÚV