Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Katrín tekur við lyklavöldum

01.12.2017 - 09:44
Mynd: RÚV / Þór Ægisson
Katrín Jakobsdóttir tók í morgun við lyklum að forsætisráðuneytinu af Bjarna Benediktssyni, sem snýr aftur í fjármálaráðuneytið eftir tæpt ár í forsætisráðuneytinu. Katrín segir að dagurinn leggist vel í sig.

Er skrítið að vera önnur konan sem er forsætisráðherra? „Alveg furðulegt að maður sé bara númer tvö, segir sína sögu,“ segir Katrín í viðtali við Jóhönnu Vigdísi Hjaltadóttur, fréttamann áður en hún gengur inn í stjórnarráðið og tekur við lyklunum.

Katrín segir að hennar fyrstu verk verði að heilsa fólkinu. „Síðan ætlum við að halda ríkisstjórnarfund síðar í dag og fara að undirbúa fjárlagafrumvarp. Þannig það er bara nóg að gera,“ segir Katrín.

Bjarni segir að það sé aðeins tregablandin tilfinning að hverfa frá forsætisráðuneytinu.  „En ég er spenntur fyrir verkefnunum framundan. Og ég er líka spenntur fyrir því að koma í fjármálaráðuneytið. Þar þekki ég ágætlega til verkefnanna og ekki síður fólkið sem þar er, þegar öllu er á botninn hvolft þá er ég spenntur fyrir framhaldinu,“ segir Bjarni.

„Við vorum spurð af erlendum blaðamanni í gær hvort þetta væri forn hefð, jafnvel frá víkingatímanum að skiptast svona á lyklum. Við höfum verið að hugsa hvað við eigum að segja við því, hversu fornt þetta er. Nú þarf ég að fara að nýta daginn af því þið voruð að spyrja hvað ég ætlaði að gera. Ég ætla að komast að því hversu forn þessi hefð er, þannig ég get kannski upplýst ykkur um það síðar í dag,“ segir Katrín Jakobsdóttir, nýr forsætisráðherra.

Fréttin hefur verið uppfærð.

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV
johannav's picture
Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir
Fréttastofa RÚV