Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Katrín ræddi netógnir og loftslagsvandann á þingi NATO

epa08043474 Prime Minister of Iceland Katrin Jakobsdottir (C) poses with British Prime Minister Boris Johnson (R) and NATO Secretary-General Jens Stoltenberg (L) during the NATO Summit in London, Britain, 04 December 2019. NATO countries' heads of states and governments gather in London for a two-day meeting.  EPA-EFE/FACUNDO ARRIZABALAGA
 Mynd: FACUNDO ARRIZABALAGA - EPA
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra fór um víðan völl í umræðum á þingi leiðtoga aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins í Lundúnum í dag. Áskoranir í öryggis- og varnarmálum, netógnir, baráttuna gegn hryðjuverkum, útgjöld bandalagsríkja NATO til varnarmála, samskiptin við Rússland og horfur í afvopnunarmálum voru meðal þess sem Katrín ræddi.

Það fór vel á með Katrínu, Jens Stoltenberg framkvæmdastjóra NATO og Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands. Þau brugðu á leik þegar þau stilltu sér upp fyrir ljósmyndara í Lundúnum. Myndir af þeim hafa vakið mikla athygli. Katrín skýrir myndina hér að neðan þannig í samtali við mbl.is að hún hafi farið í ranga átt og ekki hlýtt leiðbeiningum við myndatökuna.

Í færslu á vef forsætisráðuneytisins er sagt frá því að Katrín hafi lagt áherslu á afvopnunarmál og að styrkja þyrfti alþjóðlega samninga á því sviði, fremur en að veikja þá eins og reyndin er. Þá fjallaði hún einnig um loftslagsbreytingar sem eitt stærsta öryggismál samtímans. Stefna NATO þarf að taka mið af því.

„Afvopnunarmál voru rædd á fundinum og lýstu margir áhyggjum af þeirri stöðu sem upp er komin í kjölfar ógildingar INF-samningsins sem tekur á útbreiðslu kjarnorkuvopna,“ segir Katrín. „Við erum að sjá bakslag í afvopnunarmálum sem skapar ógn við alla heimsbyggðina. Ég lagði áherslu á að nú þyrftu ríki að taka sig saman og komast aftur á rétta braut.“

epaselect epa08043475 Prime Minister of Iceland Katrin Jakobsdottir (C) poses with British Prime Minister Boris Johnson (R) and NATO Secretary-General Jens Stoltenberg (L) during the NATO Summit in London, Britain, 04 December 2019. NATO countries' heads of states and governments gather in London for a two-day meeting.  EPA-EFE/FACUNDO ARRIZABALAGA
 Mynd: FACUNDO ARRIZABALAGA - EPA
Það fór vel á með þeim Jens Stoltenberg framkvæmdastjóra NATO, Katrínu og Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands við upphaf þingsins.

Katrín talaði einnig um ofbeldi gegn konum. „Vísaði ég sérstaklega til #metoo-hreyfingarinnar. Við vitum að ofbeldi gegn konum margfaldast á ófriðartímum og nauðganir eru þekkt vopn í stríði. Þennan veruleika verður Atlantshafsbandalagið að taka alvarlega; í stefnumótun, innan allra sinna stofnana og á fundum leiðtoga,“ segir hún.

Heimsóttu drottninguna og Downingstræti 10

Katrín átti svo fund með Pedro Sánchez, forsætisráðherra Spánar. Þau ræddu um stjórnmálaástandið, málefni Katalóníu og alþjóðasamvinnu. Guðlaugur Þór Þórðarson átti svo fund með Stef Blok, utanríkisráðherra Hollands. Þeir ræddu málefni norðurslóða, tvíhliða samskipti og alþjóðamál.

Bæði Katrín og Guðlaugur sóttu hátíðarmóttöku í Buckingham-höll í gær. Þar hittu þau drottninguna Elísabetu II Englandsdrottningu. Katrín heimsótti svo Downingstræti 10 í boði Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, í tilefni af 70 ára afmæli NATO. Guðlaugur Þór sótti hins vegar kvöldverð í boði Dominic Raab, utanríkisráðherra Bretlands.