Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Katrín jákvæð fyrir fundi með Mike Pence

23.08.2019 - 16:47
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Verið er að skoða möguleika á því að Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, og Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, hittist á Íslandi í byrjun næsta mánaðar. Katrín átti í dag fund með Jeffrey Gunter, nýjum sendiherra Bandaríkjanna hér á landi. Á þeim fundi var meðal annars ræddur sá möguleiki að Pence myndi framlengja heimsókn sína hingað þannig að þau ættu möguleika á að hittast þegar varaforsetinn kemur 4. september.

Lára Björg Björnsdóttir, upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar, segir að fundurinn með sendiherranum hafi verið fyrirfram ákveðinn. Á honum hafi þeirri hugmynd verið kastað fram að Pence yrði lengur á Íslandi til að hann og Katrín gætu átt fund saman. Lára tekur fram að endanleg ákvörðun hafi ekki verið tekin en Katrín sé jákvæð fyrir þessum möguleika.    

Ákvörðun Katrínar um að vera ekki á Íslandi þegar Pence kemur heldur ætli að flytja aðalræðuna á þingi Norræna verkalýðssambandsins í Svíþjóð hefur vakið heimsathygli, ekki síst eftir að slóst í brýnu með Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, og Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur. 

Trump aflýsti heimsókn sinni til Danmerkur eftir að Frederiksen hafnaði því að ræða möguleg kaup Bandaríkjanna á Grænlandi.  Fram kemur á vef DR í dag að Frederiksen og Trump hafi í dag átt „uppbyggilegt“ samtal um samskipti landanna tveggja.

Alþýðusamband Íslands sendi fjölmiðlum yfirlýsingu fyrr í dag þar sem sambandið lýsti furðu sinni á yfirlýsingum stjórnmálamanna vegna þessarar ákvörðunar Katrínar. Ísland gegnir formennsku í sambandinu í ár og hefð er fyrir því að forsætisráðherra viðkomandi lands flytji aðalræðuna. „Þessi orðræða segir sitt um viðhorf og firringu þeirra sem henni hafa haldið á lofti. Þar er gert lítið úr mikilvægi þess að forsætisráðherra Íslands ávarpi og eigi samtal, við fulltrúa níu milljóna verkafólks á Norðurlöndunum og samtaka þess, um mörg brýnustu úrlausnarefni samtímans,“ sagði í yfirlýsingu ASÍ.

Málefni Norðurslóðanna virðast bandarískum stjórnmálamönnum hugleikinn. Það verður eitt þeirra mála sem Pence ætlar að ræða við íslenska ráðamenn um og þá hefur þegar verið tilkynnt um mikla uppbyggingu bandaríska hersins á Keflavíkurflugvelli.