Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Katrín: Hvalveiðiskýrslan sérkennilegt útspil

18.01.2019 - 18:50
Mynd með færslu
 Mynd:
Gagnrýni á skýrslu Hagfræðistofnunar um hvalveiðar kallar á að ályktanir í henni séu skoðaðar betur, segir forsætisráðherra. Hún tekur undir með umhverfisráðherra og furðar sig á því að náttúruverndarsamtökum sé líkt við hryðjuverkasamtök.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra furðaði sig á því í viðtali við Fréttastofu í dag að náttúruverndarsamtökum væri líkt við hryðjuverndarsamtök í úttekt Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands á hvalveiðum sem gerð var að beiðni sjávarútvegsráðherra. 

Í henni kemur fram að þjóðhagslega hagkvæmt er að stunda hvalveiðar. Sjávarútvegsráðherra sagði í gær að ákvörðun hans um hvort hvalveiðum yrði haldið áfram yrði meðal annars byggð á skýrslunni. 

Þá kemur fram í úttektinni að fiskistofnar myndu stækka ef fleiri hvalir yrðu veiddir. Forsætisráðherra segir að skoða þurfi betur þær ályktanir sem dregnar séu í skýrslunni:  

„Það er auðvitað ákveðin gagnrýni sem er þegar komin fram á hana og þá sérstaklega á ýmsar ályktanir sem eru dregnar um líffræðilegar og vistfræðilegar staðreyndir,“ segir Katrín Jakobsdóttir. 

Umhverfisráðherra sagði í dag að þó svo um væri að ræða samband þarna á milli að þá væri ekki tekið tillit til þess kostnaðar sem að myndi hljótast af því að fara út í auknar hvalveiðar til dæmis vegna orðspors Íslands.

Í skýrslunni á bls. 42 er fjallað um hryðjuverk og náttúruverndarsamtök. 

„Sömuleiðis fannst mér það náttúrulega mjög furðulegt að sjá í þessari skýrslu umræðu um það að náttúruverndarsamtök. Þeim er líkt við hryðjuverkasamtök og rætt um að þurfi að sérstaklega þurfi að setja lög til þess að vernda Ísland fyrir slíkum samtökum. Mér finnst það mjög sérkennilegt útspil frá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands í garð þeirra náttúruverndarsamtaka sem hafa verið að berjast fyrir sínum málstað í hvalveiðum og bara ekki til að hjálpa umræðunni,“ segir forsætisráðherra.