Katrín heiðruð á þingi Women Political Leaders

30.11.2017 - 18:23
Mynd: Jón Þór Víglundsson / RÚV
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra var heiðruð á ráðstefnu Women Political Leaders síðdegis, örfáum klukkustundum eftir að hún tók við embætti forsætisráðherra. Katrín uppskar mikið lófaklapp og ráðstefnugestir stóðu á fætur þegar hún gekk í salinn. Fundarstjóri hafði á orði að aðeins tveimur dögum eftir að samtökin kæmu til landsins væri kona orðin forsætisráðherra.

Hanna Birna Kristjánsdóttir, stjórnarformaður Women Political Leaders og fyrrverandi ráðherra, kynnti Katrínu til sögunnar á ráðstefnunni. „Ég veit að ég tala fyrir hönd allra kvenna á Íslandi og örugglegra flestra landsmanna þegar ég segi að ég veit að Katrín verður frábær forsætisráðherra. Hún er ekki aðeins klár, góðhjörtuð og hugrökk heldur leyfir hún sér að vera kona í stjórnmálum, gera hlutina öðruvísi og hefur hugrekki til að gera hlutina ekki bara eins og þeir hafa verið gerðir.“

Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti, þakkaði Katrínu fyrir að hafa komið á ráðstefnuna um leið og hún hafði tekið við embætti forsætisráðherra. Vigdís veitti Katrínu gullna heiðursorðu sem boð um þátttöku hennar í ráði kvenleiðtoga heims. Vigdís var meðal stofnenda ráðsins.

Katrín sagði að það væri heiður að vera mætt á ráðstefnuna með Vigdísi og rifjaði upp að hún hefði verið fjögurra ára gömul þegar Vigdís var kosin forseti. Síðan þá hefði Vigdís verið konum mikil og góð fyrirmynd. Katrín þakkað Hönnu Birnu Kristjánsdóttur góða kveðju og tók undir að það væri gaman að þær hittust nú í Hörpu, samkomustaðnum sem þær hefðu í sameiningu ákveðið að reisa að fullu eftir hrun.

Katrín sagði skemmtisögu af syni sínum. Hann hefði sagt sér frá því að krakkarnir hefðu farið í forsætisráðherraleik. Inntur eftir því hvernig leikur það væri hefði hann sagt að sá krakki sem ætti móður fyrir forsætisráðherra fengi að vera forsætisráðherra í leiknum.

Katrín rifjaði upp að Jóhanna Sigurðardóttir hefði fyrst kvenna orðið forsætisráðherra Íslands. Hún sagði það hafa verið konum hvatningu og sagðist þakklát fyrir að hafa verið ráðherra í ríkisstjórn Jóhönnu. Þakka ykkur fyrir viðurkenninguna sagði Katrín og kvaðst hlakka til að taka þátt í starfi samtakanna.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi