Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Kaþólska kirkjan brást börnunum

06.02.2017 - 19:10
Fundur rannsóknarnefndar um viðbrögð við kynferðislegri misnotkun barna.
 Mynd: EPA - AAP/RCIRCSA
Kaþólska kirkjan í Ástralíu brást börnum sem misnotuð voru kynferðislega innan veggja kirkjunnar. Þetta segir einn þeirra sem unnið hefur að samantekt á ofbeldi gegn börnum á áströlskum stofnunum. Hátt á fimmta þúsund börn segja sögur af kynferðislegu ofbeldi þjóna kaþólsku kirkjunnar.

Opinber nefnd, sem skipuð var árið 2013, hafði það að markmiði að kortleggja viðbrögð ástralskra stofnanna við ásökunum um kynferðislegt ofbeldi gegn börnum. Nefndin greindi í dag frá þúsundum tilkynninga um kynferðisofbeldi, þar sem nær 40% þeirra eiga að hafa átt sér stað innan veggja kaþólsku kirkjunnar.

„Börnin voru hunsuð eða það sem verra var, að þeim var refsað. Engin rannsókn fór fram á ásökunum. Prestar og munkar voru færðir til í starfi. Nýju söfnuðirnir eða samfélögin vissu ekkert um fortíð þeirra. Skjöl voru ekki geymd eða þau eyðilögð," sagði lögfræðingurinn Gail Furness sem átti sæti í nefndinni.

Samkvæmt samantektinni voru 4,444 börn misnotuð kynferðislega á yfir 1,000 kaþólskum stofnunum á árunum 1980 til 2015. Það þýðir að 7% kaþólskra presta í Ástralíu liggja undir grun að hafa níðst kynferðislega á börnum. Ástandið var mis slæmt eftir söfnuðum. Verst var staðan í munkareglu heilags Jóhannesar, þar sem 40 prósent bræðra í reglunni hafa verið sakaðir um kynferðislegt ofbeldi gegn börnum.

„Þetta eru sláandi tölur. Þær eru hræðilegar og þetta er með öllu óverjandi. Þessar upplýsingar sem og allt sem við höfum heyrt undanfarin fjögur ár er bara hægt að túlka á einn veg. Kaþólska kirkjan í Ástralíu brást börnunum í að vernda þau fyrir misindismönnum,“ sagði Francis Sullivan, formaður sáttanefndar.

 

Nú fara fram yfirheyrslur og viðtöl við presta og aðra starfsmenn kaþólsku kirkjunnar sem og eftirlitsaðila. Lokaniðurstöður nefndarinnar, að þeirri vinnu lokinni, er að vænta undir lok árs. 

Þau skilaboð berast frá Vatíkaninu að þar á bæ sé fylgst grannt með gangi mála.

 

Birta Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV