Sviðslistahópurinn CGFC stendur að baki verkinu og Halldór Eldjárn semur og flytur tónlist þess. „Við fórum í smá rannsóknarferðalag þar sem við tókum viðtal við mikið af fólki sem veit mikið um kartöflur og er áhugasamt um kartöflur. Það er kannski rauði þráðurinn í þessu verki,“ segir Hallveig Kristín Eiríksdóttir sem skipar hópinn ásamt Ýr Jóhannsdóttur, Halldóri Eldjárn, Birni Jóni Sigurðssyni og Arnari Geir Gústafssyni.
Alls eru sýningar á verkinu þrjár; 24., 25. og 26 október.
Eldmóður ungra höfunda
Salurinn Umbúðalaust er staðsettur á 3. hæð Borgarleikhússins og var nýlega innréttaður til sýninga. Ahersla er lögð á grasrót og ungum sviðshöfundum gert kleift að vinna tilraunaverkefni innan fagleikhúss.
Að sögn Kristínar Eysteinsdóttur leikhússstjóra þróa þrír hópar verk í salnum þetta leikár. „Þetta eru verk í vinnslu og þau munu þróast áfram á sýningartímanum. Í rauninni fá leikhóparnir algjörlega frjálsar hendur. Þau í vinna með fundna hluti sem eru til í húsinu og vinna þetta í raun bara á hugvitinu og af þeim eldmóð sem einkennir unga sviðhöfunda.“
Þjóðarréttur Íslendinga
Að sögn Birnis Jóns, eins flytjenda og höfunda Kartaflna hefur grænmetistegundin gegnum tíðina valdið ólgu og breytingum í íslensku þjóðfélagi. „Þegar kartaflan kemur til landsins á 18. öld verða ákveðin skil í samfélaginu þar sem fólk í uppsveitum byrjar að hata kartöfluna meðan fólk með sjó byrjar að elska hana. Þá verður til ýsan og kartöflurnar, þjóðarréttur Íslendinga.“
Meðal þess sem fjallað er um í verkinu er rangfeðrun kartöfluræktarkonunnar Helgu Gísladóttur frá Unnarsholtskoti í Hrunamannahreppi og gerðar ítrekaðar tilraunir til að leiðrétta þá villu í opinberum gögnum.
Aðspurð segir Hallveig Kristín það síst ógnvekjandi að hleypa áhorfendum að verki í vinnslu. „Það er svolítið frelsandi að vita að fólk kemur inn í salinn vitandi að við erum bara búin að vera að vinna þetta í 3 vikur hérna í þessu rými. Við lítum á það sem frelsi til að gera svolítið ókláraðar tilraunir sem við vitum ekki niðurstöðurnar á fyrr en við sýnum það, “ segir hún. „Þetta verður spennandi kartöflustappa,“ bætir Birnir Jón við.
Nánari upplýsingar um Kartöflur og Umbúðalaust má finna hér.