Karlrapparar á Íslandi vaxa eins og lúpína

Mynd: Freyja Gylfadóttir / RÚV

Karlrapparar á Íslandi vaxa eins og lúpína

13.05.2019 - 14:23
Í nýjum hlaðvarpsþáttum hjá RÚV núll fjalla Guðmundur Felixson og Hafdís Helga Helgadóttir um vinnumarkaðinn og hversu kynjaður hann getur verið. Í þessum fyrsta þætti er fjallað um tónlistarbransann.

Þórður Kristinson, kynjafræðikennari í Kvennaskólanum segir að staðan í tónlistarbransanum í dag sé áhugaverð því þar sé að verða mikil gerjun og staða kvenna sé á góðri leið miðað við það sem áður var. Hann nefnir sem dæmi að Ragnhildur Gísladóttir var fyrsta konan sem samdi og flutti lag fyrir Þjóðhátíð í Eyjum. „Fram að því höfðu þetta bara verið karlar,“  segir Þórður. 

Tónlistarkonan Hildur Kristín Stefánsdóttir, betur þekkt sem Hildur, segir að enn þann dag í dag sé tónlist eftir karla spiluð í mun meira mæli og að karlar fái yfir höfuð mun meiri stefgreiðslur. „Akkúrat núna eru konur að fá innan við 10 prósent af öllum stefgreiðslum sem þýðir að það er verið að spila mun meira af lögum sem eru samin af karlmönnum. Það er ótrúlega á brattann að sækja að vinna upp þessi 40 prósent svo þetta sé sirka jafnt.“

Þórdís Björk, Þuríður Blær og Steinunn Jónsdóttir úr Reykjavíkurdætrum segja frá því í þættinum hvernig staða kvenna í bransanum blasir við þeim. Þuríður Blær segir að að bæði konum og körlum sé talin trú um að konum sé bara útdeilt einu plássi, eða einni kökusneið af tíu. Á sama tíma virðist endalaust pláss fyrir nýja íslenska karlkyns rappara. „Það mega endalaust koma nýir og nýir karlrapparar, þeir eru eins og illgresi. Þetta er eins og lúpína. Endalausir strákar og æðislegt að fólk sé skapandi en hvar eru stelpurnar?“ segir Blær. 

Egill Tómasson tónleikahaldari segir nóg framboð af kvenkyns listamönnum, bæði innlendum og erlendum. Egill vinnur meðal annars fyrir Iceland Airwaves en ákveðið var á síðasta ári að jafna kynjahlutfallið á hátíðinni og taka þátt í evrópsku átaki sem heitir Keychange.

Allskyns eru nýir hlaðvarpsþættir á RÚV núll þar sem kafað er ofan í vinnumarkaðinn og skoðað hvers vegna sum störf þykja karlastörf og önnur kvennastörf, í hvaða geirum er á brattann að sækja fyrir ólík kyn og hvort kyn skipti einhverju máli í ólíkum störfum.