Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

„Karlpeningurinn heldur fastast í glerþakið”

Mynd með færslu
 Mynd: FKA - RÚV
Karlarnir halda fast í glerþakið og það er ein meginástæða þess að engin kona hefur verið ráðin forstjóri í Kauphallarfyriræki síðan 2010 segir formaður Félags kvenna í atvinnulífinu. Það er lýjandi fyrir konur að sækja sífellt um forstjórastöður, sem losna reglulega, en komast aldrei að. Meðallaun forstjóra Kauphallarfyrirtækja eru fimm milljónir á mánuði.

15 fyrirtæki réðu bara karla, sum oftar en einu sinni

Allir forstjórar fyrirtækja í Kauphöll Íslands eru karlar, sem og 90 prósent forstjóra hundrað stærstu fyrirtækja landsins. Karlar eru forstjórar í rúmlega 60 prósent félaga í ríkiseigu, samkvæmt úttekt Deloitte. Árið 2017 voru meðallaun þeirra 18 forstjóra í Kauphöll fimm milljónir á mánuði. Lög um kynjakvóta voru samþykkt í mars 2010 og síðan þá hafa 15 kauphallarfyrirtæki ráðið karla sem forstjóra, aldrei konu, sum oftar en einu sinni. 

Breyskleiki sem fylgir peningum og völdum

Rakel Sveinsdóttir, formaður Félags kvenna í atvinnulífinu, segir að lengi hafi afsökunin verið sú að þessi störf væru bara sjaldan í boði. Ráðningarnar sýni hins vegar að það sé alls ekki rétt. Menntun, eða skortur á menntun, sé ekki gild afsökun lengur þar sem konur séu yfirleitt betur menntaðir en karlar. 

„Heldur er þetta kannski frekar þessi breyskleiki sem fylgir peningum og völdum. Og ég held að það sé ekkert fyrir okkur annað en að horfast í augu við það að þetta eru mannlegir breyskleikar sem spila þarna hvað mest inn í þar sem karlpeningurinn heldur fastast í glerþakið,” segir Rakel. 

Lýjandi að sækja um en vita að maður kemst ekki að 

En eru konur að sækja um þessi störf? 

„Já, sem betur fer höfum við fylgst svolítið með því. Og ég er mjög ánægð að vita til þess að þær eru að sækja um, bæði þegar það eru forstjórastörf og sömuleiðis þessi framkvæmdastjórastörf hjá stóru fyrirtækjunum. Og ég segi sem betur fer eru konur enn að sækja um vegna þess að auðvitað er það lýgjandi og letjandi fyrir konur að sjá þessi endalausu skilaboð alltaf vera þannig að það sé mjög ólíklegt að þær komist að, en samt eiga þær að vera duglegar að sækja um,” segir Rakel. „Við erum alltaf að sjá að starfsmannaveltan er nokkuð mikil hjá þessum fyrirækjum og konur komast bara ekki að.” 

Árétting kl. 13:30: Sigrún Ragna Ólafsdóttir var forstjóri VÍS árin 2011 til 2016, en VÍS var skráð í Kauphöll 2013 og var Sigrún þá eina konan sem stýrði fyrirtæki á markaði. Síðan VÍS var skráð í Kauphöll hafa hafa tveir karlar verið ráðnir forstjórar VÍS. Upphaflega stóð að engin kona hafi stýrt Kauphallarfyrirtæki síðan 2010.