Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Karlar í kvenfötum

Mynd: Wikimedia Commons  / Wikimedia Commons

Karlar í kvenfötum

06.10.2017 - 16:50

Höfundar

Í síðustu viku fjallaði Ragnhildur Hólmgeirsdóttir um klæðaskipti á meginlandi Evrópu og í Englandi á 16.-18 í pistli sínum í Víðsjá á Rás 1. Nú heldur hún áfram umfjöllun um þessi mál. Ragnhildur skrifar:

Klæðskipti ólík í gegnum aldirnar

Mörg dæmi eru þekkt um að konur hafi klætt sig sem karlmenn, enda gaf það þeim stóraukið ferða- og athafnafrelsi. Sumar konur nýttu þetta frelsi til þess að ganga í herinn, fara á sjóinn eða jafnvel til þess að kvænast. Fyrir sumar þeirra hentuðu klæðaskiptin tímabundið á meðan aðrar höfðu í hyggju að enda ævina sem karlmaður, áður en yfirvöld skárust í leikinn. Í dag tengjum við klæðaskipti frekar við karlmenn en konur, ímynd dragdrottningarinnar er sterkari en dragkóngsins. Þessu virðist hafa verið öfugt farið í Evrópu á 16.-18. öld enda mótaði menning þessa tímabils klæðaskiptin á annan hátt en við þekkjum í dag.

Í hlutverki konu á leikfjölunum

Staða kvenna og karla á þessum tíma var mjög ójöfn. Þegar konur klæddu sig eins og karlmenn öðluðust þær aukin réttindi og möguleika en því var öfugt farið fyrir karlmennina. Engu að síður stunduðu þeir líka klæðaskipti. Heimildirnar sem við höfum um konur í karlmannsfötum í London á 16. og 17. öld koma úr dómsskjölum sem hefðu líklega ekki orðið til ef ekki hefðu skapast miklar áhyggjur af siðferðisástandi borgarbúa vegna vaxandi vinsælda leikhússins. 

Leikhúslífið olli áhyggjum því það byggðist á blekkingum og ein stærsta blekkingin var sú að þar léku karlar kvenhlutverk. Ólíkt þeim konum sem stóðu ef til vill meðal áhorfendanna klæddar í karlmannsföt, þá var það ekki ætlun leikaranna að dylja líffræðilegt kyn sitt. Mótsögnin þarna á milli var það sem heillaði. Hinir karlkyns leikarar léku konur sem lentu í nauðum og þurftu að dulbúast sem ungir drengir. Óhjákvæmilega heillast einhver karlkyns persóna af drengnum og áhorfendur gátu notið þess að sjá ýjað að ástarsambandi milli tveggja karlmanna á sviðinu því undir lok leikritsins var „sannleikurinn“ afhjúpaður og sambandið endaði í lögmætri giftingu karls og konu. Nema svo var auðvitað ekki, allir vissu að konan var ennþá leikinn af sama karlmanninum.

Sjá má af heimildum að leikarar sem léku kvenhlutverkin eru kallaðir drengir. Líklega voru þeir yngri en hinir leikararnir og kannski hófst ferill hins hefðbundna leikara á unglingsárunum í kvenhlutverkum og færðist svo yfir í karlhlutverk þegar hann varð eldri. En svo getur líka skeð að orðið drengur hafi orðið að slangri yfir leikara sem léku konur. Að á bak við þessa orðanotkun sé bæði að finna raunverulega unglinga og svo leikara sem sérhæfðu sig í kvenhlutverkum alla sína starfsævi.

Hentisemi, fíflagangur eða eitthvað meira?

Yfirvöld voru sannfærð um að leikhúsið ýtti undir iðjuleysi, eyðslusemi, léttúð og kynlíf utan hjónabanda. En vinsældir leiksýninga viðast ekki hafa blásið mörgum körlum þá löngun í brjóst að ganga um göturnar í kvenklæðum. Enda hefði sá klæðnaður einmitt hindrað þá í að ganga um götur. Á þessu eru þó að sjálfsögðu undantekningar. Árið 1607 var franskur karlmaður handtekinn í London í kvenklæðum en sleppt án refsingar þar sem saga hans þótti sannfærandi. Hann var að kaupa ostrur fyrir veislu og gestunum hafði þótt fyndið að senda hann út í þessum búningi. Árið 1629 fór ekki eins vel fyrir enska flækingnum Robert Varnam sem gekk um göturnar og betlaði í gervi veikrar konu og var hýddur fyrir vikið.

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
Marlene Dietrich og félagar í Bláa Englinum (1930). Karlar í kvenmannsfötum eiga sér mun eldri sögu í leikhúsi.

En dómsskjöl eru ákaflega takmarkandi heimildir, fólk er ekki líklegt til að segja allan sannleikann í yfirheyrslum. Annar þessara manna var úrskurðaður sekur því hann ætlaði að blekkja fé út úr öðrum í gervi sínu á meðan hinn var álitinn saklaus. En hvað vitum við í raun um viðhorf þeirra og skoðanir? Sömu sýn á klæðaskipti karla má sjá í enska satíruverkinu Microcynicon sem kom út við blálok 16. aldar. Þar segir meðal annars frá raunum vændiskaupanda sem er ekki fyrr kominn í einrúm með viðfangi sínu en í ljós kemur að hún er karlmaður í kvenfötum og rænir hann. Í þessu tilviki er einnig litið svo á að karlmaðurinn hafi klætt sig svona í gróðaskyni, þóst vera veikburða kona en notað síðan líkamlegan styrk sinn til að ræna viðskiptavininn. Satíran gerir ekki ráð fyrir öðrum viðhorfum eða hvötum að baki þessum klæðaskiptum en þau gætu þó hafa verið til staðar.

Fjársjóðir fataskáps karlmanna          

Takmarkað athafnafrelsi kvenna á hefur án efa latt karlmenn til þess að klæða sig eins og konur en einnig má spyrja sig hvort karlmannsklæðin hafa á þessum tíma uppfyllt flestar villtustu langanir. Í dag njóta evrópskar konur þess frjálsræðis að geta flakkað upp og niður á skala kynjaðs klæðaburðar á meðan karlmenn eru hlekkjaðir við jakkafötin. Smávægileg frávik karla á borð við hárhnúta, naglalakk og leggings með blómamynstri vekja jafnan athygli og oft pirring. Samfélag okkar byggir á mikilli kynjatvíhyggju og það lýsir sér oft í því að þegar annað kynið öðlast aukið svigrúm þá þrengist athafnasvið hins kynsins.

Í dag geta konur daðrað við karlmannlegan klæðaburð en á 16.-18. öld voru það vel stæðir karlmenn sem gátu skreytt sig með háum hælum, silkisokkabuxum, loðfeldum og gullsaumi. Þeir gengu með eyrnalokka og gátu tékkað á lúkkinu í litlum handspeglum án þess að það þætti nokkuð annað en valdsmannslegt. Lög um réttan og tilhlýðilegan klæðaburð voru algeng í Evrópu á miðöldum og lengur, en í þeim birtist meiri löngun til þess að gera sýnilegan muninn á milli ólíkra stétta heldur en kynja. Félagslegur hreyfanleiki var samfélaginu meira umhugsunarefni en staða kynjanna, sem líklega var nokkuð föst í skorðum.

Edward Hyde, fulltrúi krúnunnar

Örlög kvenna sem klæddu sig í karlmannsföt á þessum tíma voru ólík eftir því úr hvaða samfélagsstétt þær komu og hið sama má segja um karlmenn sem klæddust kvenfötum. Eitt sérkennilegt dæmi þessa er Edward Hyde lávarður sem í upphafi 18. aldar var fulltrúi bresku krúnunnar í New York. Lávarðurinn sinnti skyldustörfum sínum í kjól og gaf þau rök fyrir því að hann væri fulltrúi valdsins, þar sem valdið væri í höndum drottningarinnar bæri honum að líkjast henni sem mest. Í seinni tíð varð hins vegar til sú kenning að lávarðurinn, sem var mjög óvinsæll, hafi orðið fórnarlamb árangursríkrar áróðursherferðar. Allar sögur um að hann hafi sinnt starfi sínu í kjól hafi verið skáldaðar upp honum til háðungar og frægt málverk af honum í kjól sé sögufölsun.

Riddarinn af Éon

Sömu efasemdir er ekki hægt að hafa um annan frægan einstakling sem lifði lífi sínu á mörkum tveggja kynja, franska diplómatann, njósnarann og hermanninn sem er jafnan þekktur sem riddarinn af Éon. Riddarinn fæddist árið 1728 og ólst upp sem karlmaður, fyrsta þekkta dæmið um líf hans sem konu er frá sjötta áratugnum, þegar hann gerðist njósnari við hirð rússnesku keisaraynjunnar. Að því loknu barðist riddarinn sem karlmaður í sjö ára stríðinu og fékk síðan stöðu í London þar sem hann vakti ómælda athygli og var meðal annars boðið að taka þátt í vinsælu veðmáli um það hvort hann væri í raun karl eða kona. Riddarinn hafnaði þátttöku og sagði að hvernig sem niðurstaðan yrði, þá væri læknisskoðun af þessu tagi niðurlægjandi og með öllu óásættanleg. Þegar riddarinn sneri loks aftur til Frakklands á áttunda áratugnum eftir stormasaman feril sótti hann opinberlega um það að lifa lífinu sem kona og fékk það, á þeim grundvelli að foreldrar hans hefðu beitt blekkingum allt frá fæðingu hans, til að tryggja fjölskyldunni arf.

Riddarinn missti aleiguna og stöðu sína í frönsku byltingunni og lést 81 árs að aldri eftir ævintýralegt lífshlaup. Eftir dauðann missti hann stjórnina sem hann hafði haft yfir eigin skilgreiningu og þó lík hans hafi valdið heilabrotum var lokaniðurstaða læknavísindanna sú að foreldrar riddarans hefðu í það minnsta ekki beitt vísvitandi blekkingum þegar þeir ólu hann upp sem dreng. Það breytir því ekki að enn í dag er riddarinn af Éon spennandi ráðgáta og innblástur um það hvað lífshlaup einnar manneskju getur spannað breitt tilvistarsvið.