Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Karlar á Alþingi sammála um mikilvægi #metoo

19.12.2017 - 21:16
Mynd með færslu
Guðmundur Ingi Kristinsson, Flokki fólksins. Mynd: RÚV
Ábyrgðin er karla, hingað og ekki lengra, karlar verða að hlusta, stundin er runnin upp. Þetta er meðal þess sem karlar á Alþingi sögðu í dag í umræðu um #metoo-byltinguna og þá staðreynd að konur í öllum stéttum samfélagsins hefðu hundruðum saman verið beittar kynbundnu ofbeldi.

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, nýr þingmaður Samfylkingarinnar, var málshefjandi í sérstakri umræðu á Alþingi í dag undir yfirskriftinni Í skugga valdsins #metoo. Albertína greindi frá því að 4609 konur hefðu nú skrifað undir yfirlýsingu gegn kynferðislegu ofbeldi og 616 frásagnir hefðu verið birtar. Málið snerti allar starfsstéttir.

„En hvernig hefjum við samtalið sem að við þurfum að taka um feðraveldið sem að kennir drengjum að þeir hafi valdið og að það sé í lagi að áreita konur og niðurlægja þær. Því miður er þetta rótgróin ómenning, hegðun sem er engum til gagns, hvorki konum né körlum,“ sagði Albertína á Alþingi í dag.

Dómsmálaráðherra fagnaði umræðunni nú í byrjun þings og sagði að auðvelda þyrfti fólki að stíga fram. Samhljómur í umræðunni í þingsal í dag var alger og yfirlýsingar þingkarla voru á einn veg. „Ég segi að við eigum karlmenn að segja, hingað og ekki lengra, yfirgangur af þessu tagi verður ekki liðinn lengur,“ sagði Guðmundir Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins.

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, sagði að ábyrgðin væri karla. „Auðvitað kemur það fyrir að karlar eru áreittir og lenda í alls konar hræðilegum hlutum, en einfaldlega, magnið af þessum tilvikum sem koma fyrir konur er svo algerlega sturlað,“ sagði Helgi.

Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar, sagði kominn tíma fyrir karla að leggja við hlustir. „Ég held að það væri sennilega eitt það besta sem við gætum gert, þegar við heyrum allar þær sögur, allt það umfang af kynbundnu ofbeldi sem konur verða fyrir á hverjum degi, í öllum stéttum samfélagsins,“ sagði hann.  

Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Vinstri grænna, tók í sama streng. „Við skulum fagna því að #metoo hafi kveikt umræðuna og gert okkur öll að femínistum, nú skulum við öll halda áfram að vera femínistar og skila af okkur raunverulega bættu samfélagi, stundin er runnin upp,“ sagði hann.