Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Kári vill „handjárna“ næstu ríkisstjórn

21.12.2015 - 08:49
Mynd: RÚV / RÚV
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, ætlar með undirskriftasöfnun að „handjárna“ næstu ríkisstjórn þannig að hún veiti meira fé til heilbrigðismála, svo nemi ellefu prósentum af þjóðarframleiðslu. Kári segir fullreynt að láta stjórnvöld annast heilbrigðiskerfið.

Kári birti grein í Féttablaðinu 10. desember þar sem hann hótaði að safna 100.000 undirskriftum fólks sem lofaði að kjósa aldrei aftur ríkisstjórnarflokkana, ef fjárlagafrumvarpinu yrði ekki beytt. Sagði Kári að meira fé þyrfti að fara til Landspítalans. Í Morgunútvarpinu í morgun sagðist Kári vissulega stefna að því að safna undirskriftum, enda væri 1.250 milljóna króna aukaframlag til spítalans ekki nóg. 

„Það sem gleður mig við þetta framlag er að það sýnir að stjórnvöld hafa þann sveigjanleika sem þarf til að bregðast við, að minnsta kosti að einhverju leyti, þrýstingi úr samfélaginu. Og þar sem þeim er ætlað að þjóna þessu samfélagi hlýtur það að teljast til kosta hjá þessum stjórnvöldum að þeir hafi brugðist við á síðustu stundu með því að bæta við 1.250 milljónum til Landspítalans. Hins ber að geta að þörfin er miklu meiri. Spítalinn verður að öllum líkindum ekki rekinn fyrir það fé sem honum er ætlað á næsta ári,“ segir Kári.

„Og þetta er sérstaklega pínlegt þegar maður les í Morgunblaðinu í morgun að fjármálaráðherra er að spá því að það verði 350 milljarða króna afgangur af fjárlögum á næsta ári. Og hann segir að það verði notað til að taka til í ríkisfjármálum. Ég held að það hljóti alltaf að vera gott að taka til í ríkisfjármálum. En þegar um er að ræða krísu á mikilvægum vettvangi eins og í heilbrigðiskerfinu hlýtur maður að sinna því áður en maður fer að borga upp skuldir. Þetta er allt spurning um forgangsröðun. Finnst mönnum mikilvægara að hafa fyrir framan sig snyrtilegt og gott excel-skjal eða finnst mönnum mikilvægara að sinna vel sjúkum, meiddum og lösnu fólki í okkar samfélagi? Þar held ég að sé allavega pínulítill ágreiningur milli mín og fjármálaráðherra.“

Geta ekki hunsað undirskriftir

Kári segir að vandi heilbrigðiskerfisins sé vandamál sem hafi safnast upp á mjög löngum tíma. Rekja megi vandann til þjóðarinnar sjálfrar sem hafi á undanförnum 25 árum kosið fulltrúa sem hafi hunsað þann málaflokk sem allir telja mikilvægasta málaflokkinn í íslensku samfélagi. Kári vill því tryggja að næsta ríkisstjórn sinni málefninu betur.

„Ég hef verið að forma með mér með hjálp góðra manna, hugmynd um undirskriftasöfnun sem myndi miðast við að handjárna næstu ríkisstjórn þannig að hún verði að setja það fé í heilbrigðismálin sem eðlilegt má teljast. Við eyðum 8,7% af vergri þjóðarframleiðslu til heilbrigðismála þegar meðaltalið í löndunum í kringum okkur er rúmlega 10%. Við erum lítil þjóð þannig að það er líklegt að kostnaður við heilbrigðisþjónustu á nef hvert sé töluvert meiri hér en á meðal stærri þjóðanna. Þannig að ég held að það sé ekkert óeðlilegt að við stefnum að því að við eyddum í kringum 11% af vergri þjóðarframleiðslu til heilbrigðismála. Og ég hef verið að velta fyrir mér hvort ekki mætti setja af stað undirskriftasöfnun þar sem við reyndum að ná meirihluta þjóðarinnar. Ég reikna með að það verði hægt að ná mjög miklum meirihluta þjóðarinnar til þess að raunverulega krefjast þess af stjórnvöldum að þetta verði gert,“ segir Kári.

Vissulega sé ekki hægt að svipta Alþingi fjárveitingarvaldinu, en hjálpa megi kjörnum fulltrúum við að taka réttar ákvarðanir. „Og ég held að það sé bara fullreynt að skilja heilbrigðismálin eftir í umsjá stjórnvalda. Á síðustu 25 árum hefur verið grafið undan heilbrigðisþjónustunni og hún er komin á mjög slæman stað,“ segir Kári.

„Og það sem ég er raunverulega að segja er að það er kominn tími til þess að beita beinu lýðræði í málaflokki eins og þessum. Beina lýðræðið er möguleiki í dag með netaðgangi. Ég held að það sé hægt að ná til fólksins í landinu og gefa því tækifæri til þess að tjá sig um þennan málaflokk á tiltölulega stuttum tíma. Ekki held ég að það verði þægilegt fyrir þá sem setjast á ráðherrastóla næst að stija uppi með undirskriftir, við skulum segja 80% þjóðarinnar. Hvernig í ósköpunum ættu þeir að hunsa slíkan vilja? Jafnvel þótt við séum með þetta fulltrúalýðræði og þótt við séum með þingræði, þá er það fyrst og fremst lýðræði sem á að gilda í okkar landi. Og ég held að þeir stjórnmálaflokkar sem myndu hunsa þannig undirskriftir myndu lenda í töluverðum vandræðum.“