Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Kardináli hlýtur sex ára dóm fyrir barnaníð

13.03.2019 - 00:58
epa05170367 (FILE) A file photograph showing eighth Roman Catholic Archbishop of Sydney, Cardinal George Pell attending a Mass of Thanksgiving, in Sydney, Australia, 27 March 2014. Reports on 18 February 2016 state that Cardinal Pell says he is keen to
 Mynd: EPA - AAP FILE
Ástralski kardinálinn George Pell var dæmdur í sex ára fangelsi í kvöld fyrir að beita tvo drengi kynferðisofbeldi í dómkirkju í Melbourne árið 1996. Pell er æðsti embættismaður kaþólsku kirkjunnar til að hljóta dóm fyrir barnaníð. Hann gegndi embætti fjármálastjóra í Vatíkaninu og var ráðgjafi Frans páfa. 

Dómarinn Peter Kidd sagði brotin verulega alvarleg. Þau hafi haft veruleg áhrif á líf annars drengsins, sem enn er á lífi, og að líkindum svipuð áhrif á líf hins drengsins, sem lést eftir að hafa tekið of stóran skammt af heróíni. Þá sakaði dómarinn Pell um að sýna þjáningu drengjanna kaldranalegt áhugaleysi.

Pell átti yfir höfði sér allt að 50 ára fangelsi fyrir brot sín. Kidd dómari sagði við dómsuppkvaðninguna að miðað við heilsufar Pells þýði sex ára dómurinn að líkur séu á að hann verði ekki á lífi þegar hann hefur lokið afplánun. Pell er 77 ára gamall og glímir við hjartavandamál og háþrýsting að sögn AFP fréttastofunnar. Kidd dómari sagði það veigamikið atriði í dómi sínum að hvert ár sem hann verji í varðhaldi sé stór hluti af þeim árum sem hann eigi eftir á lífi.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV