Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Kardínáli fordæmir umskurðar-frumvarp Silju

07.02.2018 - 08:26
epa06258429 Chairman of the German Bishops Conference, Cardinal Reinhard Marx, stands in front of the catholic academy during the St. Michael's reception (Michaelsempfang) of the German Bishops Conference in Berlin, Germany, 10 October 2017. The St.
 Mynd: EPA - RÚV
Reinhard Marx, kardínálinn í München, einn af nánustu ráðgjöfum Frans páfa og formaður Evrópusambandssnefndar kaþólska biskuparáðsins, fordæmir fyrirhugað umskurðar-frumvarp Silju Daggar Gunnarsdóttur og átta annarra þingmanna og segir það hættulega atlögu að trúfrelsinu. Evrópskir rabbínar hafa þegar hvatt til þess að íslensk stjórnvöld verði beitt þrýstingi til að koma í veg fyrir að frumvarpið verði samþykkt.

Samkvæmt frumvarpinu yrði umskurður drengja, nema af heilsufarsástæðum, bannaður og allt að sex ára fangelsi lægi við brotum gegn slíkri löggjöf.  Í frumvarpinu segir að það sé vissulega réttur foreldra að veita barni sínu leiðsögn þegar kemur að trúarbrögðum en slíkur réttur geti aldrei gengið framar rétti barnsins.  

Í frétt Crux Now, einni helstu fréttaveita Bandaríkjanna af málefnum kaþólsku kirkjunnar, er vitnað í yfirlýsingu frá Marx þar sem fram kemur að það sé gott og gilt markmið hjá hverju samfélagi að vernda réttindi barna. „En í þessu tilviki er verið að úthýsa ákveðnum trúarbrögðum án þess að hafa fyrir því nokkur vísindaleg rök og það er mikið áhyggjuefni,“ segir í yfirlýsingu Marx. 

Hann segir að COMECE, Evrópusambandssnefnd kaþólska biskuparáðsins í Evrópu en hlutverk nefndarinnar er að fylgjast með lagasetningum og þróun mála er snerta kirkjuna eða trúarbrögð, líti á allar tilraunir til að hefta trúfrelsi fólks sem óásættanlegar. „Að ætla að glæpavæða umskurð drengja er mjög róttæk aðgerð sem veldur miklum áhyggjum.“ Marx hvetur stofnanir Evrópusambandsins til að grípa til aðgerða þannig að hægt verði að koma í veg fyrir að frumvarpið taki gildi.

Silja Dögg Gunnarsdóttir, sem er fyrsti flutningsmaður frumvarpsins, sagði í fréttum RÚV um helgina að það hafi komið henni á óvart að leyfilegt væri að umskera drengi „því að mér finnst þetta vera barnaverndarmál,“ sagði en bann við umskurði á konum og stúlkum hér á landi hefur verið í gildi síðan árið 2005. 

Bjarni Karlsson, prestur, skrifaði Bakþanka í Fréttablaðinu í morgun, þar sem hann spurði hvort ekki væri ráð að efnt væri til samtals þar sem ólíkar raddir fengjust að heyra „í stað þess að glæpavæða hérna heilu menningarheimana.“

Fréttin hefur verið uppfærð þar sem varpað er frekara ljósi á hvað COMECE er.