Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Kapphlaup á hælaskóm

05.07.2019 - 13:38
Mynd: AP / AP
Flestir myndu líklega velja sér allt annað en hælaskó til að klæðast þegar ætlunin er að ná árangri í kapphlaupi. Annar fótabúnaður en hælaskór var þó ekki leyfður í hlaupi sem fór fram í Madrid í gær. Hlaupið var hluti af dagskrá Hinsegin daga sem haldnir eru í spænsku borginni um þessar mundir.

Og það eru ekki bara einhverjir hælaskór sem má nota við hlaupin, hælarnir verða að vera hið minnsta 10 sentimetra háir. 

Hlaupaleiðin er reyndar ekki ýkja löng en reynir sannarlega á ökkla þáttakenda. Margir bregða á það ráð að líma skóna fasta á fætur sína til að þeir tolli betur, eins og sjá má á meðfylgjandi myndskeiði. 

Og þetta er ekki eingöngu til gamans gert. Sprettharðasti hælahlauparinn fær 350 Evrur í verðlaun. 

Mynd með færslu
 Mynd: AP

Háhælahlaupið er orðið að árlegri hefð í tengslum við Madrid Pride, hinsegin daga í borginni, og þetta mun vera í tuttugasta sinn sem þátttakendur spretta úr spori í hælaskóm í Madrid. 

Það hefur þó átt undir högg að sækja undanfarið, ekki síst frá þingmönnum VOX-flokksins. Sá fékk 10% fylgi í þingkosningum á Spáni í apríl síðastliðnum. VOX, sem er þjóðernisflokkur, hefur barist fyrir því að hátíðin verði færð úr miðbænum og í úthverfi. Rocío Monasterio, fulltrúi VOX í Madríd, sagði hátíðahöld að þessu tagi misbjóða sómakennd fólks. 

„Þegar móðir eða faðir ganga út á götu ættu þau ekki að þurfa að ganga fram á þetta sjónarspil, sem stundum fela í sér kynferðisatlot á götum úti um hábjartan dag,“ sagði Monasterio í viðtali við La Contra TV í gærkvöld

 

Birta Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV