Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Kannski fá þau sektarkennd þegar ég drep mig“

Mynd: RÚV / RÚV

„Kannski fá þau sektarkennd þegar ég drep mig“

11.10.2019 - 16:29

Höfundar

„Ég ætlaði einu sinni að drepa mig. Ég var í skólanum, þetta var um hádegi og ég var búinn að eiga frekar erfiðan dag en hann var búinn að ganga samkvæmt venju,“ er meðal þess sem Stefán Ingvar Vigfússon deilir með áhorfendum í einlægu uppistandi um sjálfsvígshugsanir sem hann glímdi við.

Stefán Ingvar Vigfússon samdi uppistand um tilraunir sínar til að svipta sig lífi og flutti fyrir fullum sal í Þjóðleikhúskjallaranum. Hann deilir þar persónulegri reynslu sinni af alvarlegu þunglyndi sínu á kómískan hátt. Í nýjasta þætti Heilabrota kíktu þær Steiney og Sigurlaug Sara á uppistand Stefáns og ræddu við hann og aðra um þunglyndi, einkenni og orsök. Uppistand Stefáns er hluti af verkefni hans í Listaháskólanum en í námi sínu sótti hann kúrs sem snerist um að sviðsetja hið persónulega. „Sem Listaháskólaverkefni virkar þetta uppistand fullkomlega en ekki að því leyti að ég efaðist stöðugt um ágæti mitt,“ segir hann.

Hann segir dæmisögu af erfiðum degi í lífi hans þegar hann tók þá skelfilegu ákvörðun að enda eigið líf. „Ég fékk mér morgunkaffið sem var alveg fínt en svo ákveð ég þetta og lundin léttist allsvakalega. Ég á góð samskipti við fólk sem áður höfðu gengið erfiðlega því ég fyllist frelsistilfinningu að vita að þetta væri síðasti dagurinn minn,“ rifjar hann upp fyrir áhorfendum. 

Hann gengur heim úr skólanum og mætir fólki sem honum er illa við en ákveður að heilsa þeim kumpánlega og spjalla. „Þá fá þau kannski sektarkennd ef ég drep og hugsa: Stefán var bara nokkuð kammó. Hann var ekki svona lokaður og hrokafullur eins og ég hafði alltaf haldið.“

Að lokum voru það þó erfiðleikar á leigumarkaðnum sem björguðu lífi hans. „Þegar ég sé bíl foreldra minna áttaði ég mig á að pabbi minn væri heima svo ég kunni ekki við að svipta mig lífi,“ segir hann. „Ég hefði náttúrulega átt að vera löngu fluttur að heiman verandi 22 ára gamall. Leigumarkaðurinn bjargaði þessu eins og svo mörgu öðru.“

Innslagið í spilaranum efst í fréttinni er úr fjórða þætti Heilabrota sem fjallar um þunglyndi. Talið er að á hverjum tíma þjáist um fjögur til sex prósent þjóðarinnar af sjúklegu þunglyndi, eða um 12 til 18 þúsund manns. Heilabrot er á dagskrá á RÚV á fimmtudögum klukkan 20:05.

Tengdar fréttir

Sjónvarp

Allir sem eiga mikinn pening geta fengið hjálp

Fóbía fyrir gubbi truflar framtíðar barneignir

Menningarefni

Sótti ekki bílinn í átta mánuði út af kvíða