Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Kannast ekki við trúnaðarbrest

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, segir að það kæmi sér á óvart ef Sigurði Inga Jóhannssyni, varaformanni, snerist hugur og gæfi kost á sér í embættið aftur á flokksþingi í næsta mánuði. Hann kannast ekki við trúnaðarbrest á milli þeirra tveggja.

Sigmundur Davíð vann afgerandi sigur á kjördæmisþingi Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi - hlaut 72 prósent atkvæða. Kosningin var sögð ögurstund fyrir formanninn, ekki síst eftir yfirlýsingu Sigurðar Inga Jóhannssonar, varaformanns flokksins og forsætisráðherra, á miðstjórnarfundi flokksins. 

Mynd: RÚV / RÚV

Þar sagðist  Sigurður Ingi ekki ætla að gefa kost á sér aftur sem varaformaður við núverandi stjórn. Forsætisráðherra flutti ræðu sína eftir að fundinum var lokað fyrir fjölmiðlum en fram kom í fréttum að ein ástæðan fyrir þessari ákvörðun hans hefði verið trúnaðarbrestur - án þess að það væri útskýrt eitthvað frekar.  Í framhaldinu hafa þrjú framsóknarfélög skorað á varaformanninn að gefa kost á sér til formennsku. 

Mynd: Starri Gylfason / RÚV

Sigmundur Davíð telur að menn séu að reyna að fylla í eyðurnar í ræðu Sigurðar Inga. „Við náttúrlega sátum saman á þessum fundi og ég fann ekki annað en að við gætum setið saman áfram og myndum gera hér eftir sem hingað til. VIð höfum unnið saman í fjöldamörg frá þannig að ég held að það sé óþarfi að oftúlka ræðu Sigurðar Inga.“

Sigmundur á ekki von á því að Sigurði Inga snúist hugur og gefi áfram kost á sér sem varaformaður. Það kæmi í það minnsta honum á óvart ef það gerðist.  Hann vill þó ekki kannast við neinn trúnaðarbrest milli þeirra tveggja. „Ég ætla ekki  að tjá mig um fullyrðingar um að hann tali um trúnaðarbrest sem ég er ekkert viss um að sé tilfellið. Ég veit ekki hvað það væri.“ Þannig að það er ekki rétt sem fullyrt hefur verið í fjölmiðlum að hann hafi talað um trúnaðarbrest? „Ég minnist þess ekki.“ 

Ekki náðist í Sigurð Inga við vinnslu fréttarinnar.