Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Kannar möguleika á ylströnd á tveimur stöðum

19.10.2017 - 18:11
Mynd með færslu
Ylströndin í Nauthólsvík. Mynd: RÚV
Starfshópur verður skipaður til að kanna möguleikann á því að nýta heitt umframvatn til að búa til ylstrandir við Gufunes og Skarfaklett í Reykjavík. Borgarráð samþykkti tillögu borgarstjóra um starfshópinn á fundi sínum í morgun.

Í minnisblaði frá Veitum kemur fram að virkjunin á Nesjavöllum framleiði mun meira af heitu vatni á sumrin en þörf er á og því sé umframvatni fargað á sumrin. Hægt væri að leiða vatnið í Gufunes frá Víkurvegsstöð í Grafarvogi en fyrir ylströnd við Skarfaklett gæti heita vatnið komið úr svokallaðri Sundlaugastöð. 

Í tilkynningu frá borginni kemur fram að í framtíðinni sé gert ráð fyrir að allt umframvatn frá Grensásstöð og Sundlaugastöð verði losað til sjávar í frárennslispípu úr Sundlaugastöð. „Þær framkvæmdir hafa ekki verið tímasettar en lauslegt mat er að þörf myndist á næstu 10 árum. Kanna þarf  hvort tenging í sjó fram gæti legið að Skarfakletti og hvort flýta megi framkvæmdinni.“

Starfshópurinn sem stofnaður yrði til að fullkanna og útfæra möguleika á nýtingu umframvatns fyrir þessar tvær ylstrandir yrði skipaður fulltrúum ÍTR, skrifstofu eigna- og atvinnuþróunar, umhverfis- og skipulagssviðs og Orkuveitu Reykjavíkur. 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV